Veðrið, þ.e. hitastig, úrkoma og vindar ásamt legu lands, og hæð yfir sjávarmáli stjórna lífsskilyrðum á Jörðinni. 

Veðrahvolf
Innsta lag lofthjúpsins byrjar við yfirborð jarðar og nær 9 km hæð við pólsvæði jarðar en 12 km hæð við miðbauginn. Innan þessa hvolfs dregur jafnt og þétt úr hitastigi með aukinni hæð, frá 18°C meðaltali við yfirborðið niður í -55°C við veðrahvörfin (e. tropopause), efri mörk þess.

Hnattræn hlýnun
Eitt stærsta vandamál nútímans er hlýnun Jarðar. Hlýnunin er af mannavöldum og stafar af aukinni losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið sem síðan hefur keðjuverkandi áhrif út í náttúruna, „Áhrif hlýnunar Jarðar verða harkaleg, útbreidd og um leið óafturkallanleg“, segir í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar*. Áhrifanna er nú þegar farið að gæta víða um heim. Flóð, ofsaveður og skógareldar eru aðeins ein birtingarmynd hlýnunar Jarðar. Félagsleg áhrif verða geigvænleg þegar fólk fer i auknum mæli að flýja heimkynni sín vegna hækkandi sjávarborðs. Hagkerfi heimsins mun einnig bíða stóran skaða og ekki er nokkur leið að gera sér í hugarlund hver áhrifin verða á þjóðir heims í stóru myndinni ef svartsýnustu spár ná fram að ganga. Það er því ekkert gamanmál sem við eigum hér við að etja og allir verða að leggja sitt af mörkum til að minnka sóun og koma í veg fyrir mengun. Það er á valdi okkar borgaranna að taka ábyrgð og gera allt sem við getum til að sporna við þessari þróun í eigin lífi og hvetja aðra í lið með okkur.

Gróðurhúsaáhrif
Frá sólinni berst orkurík geislun með stuttri bylgjulengd. Nokkur hluti þessarar geislunar endurkastast aftur út í geim, annar hluti dreifist í andrúmsloftinu og um helmingur geislunarinnar nær yfirborði jarðar sem sólarljós. Ljósið hitar yfirborð jarðar sem sendir varmann frá sér sem innrauða geislun með langri bylgjulengd. Innrauða geislunin sem ætti að fara aftur út í geim er fönguð af svokölluðum gróðurhúsalofttegundum sem mynda eins konar teppi eða gróðurhús umhverfis jörðina. Þannig kemst meiri sólarorka inn til jarðar en losnar frá henni og afleiðingarnar verða hækkun á meðalhita jarðar og hlýnun andrúmsloftsins.

Helstu gróðurhúsalofttegundir eru koltvíoxíð, vatnsgufa, metan, og efni eins og SF6 sem geta verið þúsundir ára í andrúmsloftinu. Koltvíoxíð myndast við bruna jarðefnaeldsneytis og losnar einnig frá iðnaði og vegna gróðureyðingar. Metan kemur frá búpeningi, úr mýrum og sífrerasvæðum sem eru að bráðna vegna hlýnandi loftslags. Nox efni koma úr áburði, jarðvegi, og frá bruna jarðefnaeldsneytis.

Magn koltvíoxíðs í andrúmsloftinu hefur aukist frá 280 ppm fyrir iðnbyltingu í 380 ppm árið 2005 og 400 ppm árið 2013. Meðalhiti jarðar hefur hækkað um 0,8 °C á sama tíma. Helstu afleiðingar loftslagsbreytinga eru taldar vera eftirfarandi:

  • Kólnun í heiðhvolfi jarðar.
  • Hækkun meðalhita jarðar.·
  • Aukning úrkomu.
  • Hafís hverfur.
  • Yfirborð norðurhvels hitnar að vetri til.
  • Yfirborð sjávar hækkar.
  • Tíðari stormar.·
  • Gróðurbelti jarðar færast til.

Leiðir til þess að berjast við loftslagsbreytingar:

  • Tæknilegar lausnir – minni mengun.
  • Tæknilegar lausnir – taka CO2 úr andrúmsloftinu.
  • Breyttur lífsstíll – minni neysla.
  • Minnka brennslu olíu og jarðefnaeldsneytis.
  • Fræðsla um loftslagsbreytingar.

*frá mars 2014.

Birt:
30. apríl 2014
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Veðrið“, Náttúran.is: 30. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/30/sky/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. júní 2014

Skilaboð: