Flugvélar brenna nú þegar um 130 milljónum tonna af flugvélaeldsneyti á ári hverju. En hvað er hægt að taka til bragðs? Að sögn sérfræðinga er það eina sem hægt er að gera í stöðunni að hanna umhverfisvænar flugvélar alveg frá grunni og draga úr flugumferð. 

Stöðugt er unnið að endurbótum á flugvélum til að gera þær sparneytnari. Nýjasta breytingin eru lóðréttir vængendar. Þeir virka loftfræðilega eins og vængurinn sé lengri en hann er í raun og veru. Lengd vængja takmarkast nefnilega af plássi á stæðum við flugstöðvarbyggingar en ekki af loftfræðilega hagkvæmustu lengd. Með lóðréttum vængenda fæst betri virkni vængsins og minni iðustraumar sem geta verið hættulegir öðrum smærri flugvélum. Vængenda má jafnvel setja á eldri flugvélar.

Önnur tækni til bættrar nýtingar eru flugvélar úr léttari efni. Nýjustu flugvélar eru smíðaðar úr koltrefjaplastefnum sem eru mjög sterkar miðað við þyngd. Þriðja aðferðin til að bæta nýtinguna er breytt hönnun þotumótora. Ein aðferðin er að stækka stóra blásarann fremst á þotumótornum en um leið að gíra hraða hans niður. Þannig eykst hjáloftið í 12:1 miðað við 8:1 í dag. Þetta þýðir aukna nýtni. Fjórða aðferðin væri gerbreytt hönnun flugvéla, t.d. fljúgandi vængir. 

Neytendur hafa samt síðasta orðið. Með því að versla vöru sem framleidd er í heimabyggð má komast hjá því að eyða orku í óþarfa flutning.

Birt:
30. apríl 2014
Höfundur:
Einar Einarsson
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Einar Einarsson „Flugvél“, Náttúran.is: 30. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/30/loft-flugvel/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. júní 2014

Skilaboð: