Jöklar á Íslandi þekja nú um 11% af flatarmáli landsins (um 11.400 km2 af 103.125 km2). Vatnajökull, stærsti jökull Evrópu, þekur um 8% landsins. Stærstu jöklana er að finna á sunnanverðu landinu og í miðju þess. Ástæðan er sú að þar er meiri úrkoma en norðanlands. Áætlað er að um 20% heildarúrkomu á Íslandi falli á jöklana. Ásýnd jöklanna breytist hratt og stór hluti þeirra eru skriðjöklar. Allir íslenskir jöklar eru þíðjöklar.

Talið er að síðasta kuldaskeiði ísaldar hafi lokið fyrir um 10 þúsund árum og hlýskeið gengið í garð. Líklega var Ísland alveg jökullaust (eða því sem næst) fyrir 9 þúsund árum. Tímabilið frá þeim tíma og þar til fyrir 2.500 árum einkenndist af mjög mildu veðurfari. Fyrir 2.500 árum kólnaði í veðri og núverandi jöklar tóku að myndast. Jöklarnir hafa sennilega náð hámarki um aldamótin 1900 en hafa síðan þá dregist hratt saman.

Frá árinu 1995 hafa jöklarnir dregist enn frekar saman. Til dæmis hefur Vatnajökull rýrnað að meðaltali um 4 km3 á ári sem samsvarar því að allur jökullinn þynnist um hálfan metra árlega. Spáð hefur verið að jöklarnir munu halda áfram að hopa ört á þessari öld og afrennsli þeirra aukast til muna á fyrri hluta aldarinnar, en nú kemur um 20% árrennslis úr jöklum. Þessi farglosun mun valda landrisi, einkum á suðausturhluta landsins, en einnig hefur verið spáð fyrir um hækkandi stöðu sjávar. Landris ku ekki munu verða á suðvesturlandi vegna landsigs sem hefur orðið þar.

Þú sérð helstu jökla á Íslandi undir „Náttúran / Land og lögur / Jökull“ á Græna kortinu á Náttúran.is.

Sjá Græna kortið.

Birt:
30. apríl 2014
Höfundur:
Wikipedia
Tilvitnun:
Wikipedia „Jökull“, Náttúran.is: 30. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/30/jokull/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. júní 2014

Skilaboð: