Hraun
Eldvirkni kallast það þegar bráðið berg kemur upp á yfirborð jarðar, þegar hraun, eldfjallagös og aska kemur upp um sprungur eða gígop. Hraun eru misþykk og renna mishratt. Súr hraunkvika inniheldur hátt magn af kísli (Si) sem eykur seigju hraunsins þannig að það rennur hægar og myndar þykk, úfin apalhraun.
Sé hraunkvikan hins vegar basísk er kísilinnihald hraunstraumsins lágt, hann rennur hratt fram eins og í dyngjugosum og þá myndast svokölluð helluhraun með hraunreipum og tiltölulega sléttu yfirborði (samanborið við apalhraun).
Í helluhraunum eru hellar algengir. Þeir myndast oft þannig að basískt hraunið rennur sem hraunelfur neðanjarðar. Þak myndast fyrir ofan, en síðan rennur hraunið burt er gosvirkni minnkar og eftir verða hellamyndanir sem oft er mjög gaman að skoða.
Apalhraun eru hins vegar oft erfið yfirferðar, úfin og er leggjabrjótur dæmi um nafn á slíkum hraunum þ.e. mjög auðvelt er að fótbrjóta sig í þeim.
Megineldstöðvar eru yfirleitt stór eldfjöll sem standa í miðju eldstöðvakerfisins með sprungusveim í kringum sig. Dæmi um megineldstöðvar á Íslandi eru Hekla, Hengillinn og Eyjafjallajökull.
Í megineldstöðvunum kemur kvika upp á yfirborð og myndar hraunrennsli annað hvort eftir sprungum eða úr gígum í eldfjallinu sjálfu.
Eldfjöll skiptast í marga mismunandi flokka. Eyjafjallajökull er eldkeila eins og eldfjallið Fuji í Japan en Hekla er eldhryggur og klofnar fjallið stundum eftir hryggnum endilöngum í eldgosum.
Mestu hraunmyndanir sem runnið hafa í einu gosi á Íslandi á sögulegum tíma eru hraunin úr Lakagígum við Skaftárelda sem runnu árið 1789. Sem dæmi um stór hraun má einnig nefna Þjórsárhraunið sem rann fyrir um 8000 árum sennilega úr Veiðivötnum allt til sjávar við Eyrarbakka og Stokkseyri.
Mest eldvirkni á Íslandi er undir Vatnajökli t.d. í Grímsvötnum. Hinn svokallaði heiti reitur er einmitt talinn liggja undir Vatnajökli. Þar er jarðskorpan þunn samanborið við annarsstaðar og stutt ofan í möttul Jarðar þannig að hin tíða eldvirkni í Vatnajökli kemur ekki svo mikið á óvart.
Eldvirkni á Íslandi er með því mesta sem þekkist á byggðu bóli, enda landið meira og minna byggt upp af hraunlögum sem myndast hafa í eldgosahrinum.
Þú sérð helstu eldfjöll á Íslandi undir „Náttúran / Land og lögur / Eldfjall“ á Græna kortinu á Náttúran.is.
Birt:
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Hraun“, Náttúran.is: 30. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/30/hraun/ [Skoðað:3. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. júní 2014