Í sjálfbærri byggingu er takmarkið að nota lagnir og kerfi sem gefa gott innanhússloftslag og virka án mikils viðhalds eða sérfræðikunnáttu. Lagnir og kerfi eins og upphitun, rafmagn, vatnslagnir, frárennsli og loftræsting eru orðin flóknari en áður. Nýjasta viðbótin er upplýsingatækni (information technology, IT) til að stjórna mismunandi kerfum.

Það sem hefur áhrif á vellíðan fólks innandyra:

  • hitastig
  • loftgæði (ferskt loft, lykt, ryk, svifryk, útblástur)
  • hljóðgæði (hljóðstyrkur, bergmál, hávaði og titringur)
  • ljósgæði (lýsing, ljósstyrkur, litasamsetning, dagsljós)
  • rafloftslag. Rafloftslag fer eftir raf- og segulsviði sem myndast frá raflögnum og raftækjum auk stöðurafmagns. Stöðurafmagn myndast í þurru lofti sem leiðir rafmagn mjög illa. Því „staðnar” rafhleðslan. Neikvæðar hleðslur á fólki draga til sín jákvætt hlaðnar óhreinindaagnir.

Fráveita

Fráveita er leiðslukerfi fyrir fráveituvatn þ.e. skólp, ofanvatn og vatn frá upphitunarkerfum húsa. Til að stuðla að sjálfbærri þróun þarf að hreinsa fráveituvatn staðbundið og sjá til þess að næringarefnum sé skilað aftur til náttúrunnar. Frá árinu 1999 er skylt að hreinsa allt fráveituvatn á Íslandi. Hefðbundnar skólphreinsistöðvar hreinsa smitandi efni svo meðhöndlað vatn mengi ekki vötn og ár. Í náttúrlegum hreinsivirkjum er næringarefnum skólps að auki skilað aftur til náttúrunnar.

Hvað er í skólpi?

Skólp getur bæði talist til auðlinda og mengunarefna. Auðlindahlutinn inniheldur næringarefni, lífræn efni, varmaorku og vatn en mengunarhlutinn smitandi efni, eins og bakteríur, vírusa og sníkjudýr, og þungmálma. Næringarefnin er helst að finna í þvagi. Náttúran, með mold, gróðri og örverum, býr yfir góðum hæfileika til að hreinsa skólpvatn. Þróuð hafa verið tilbúin náttúrukerfi til hreinsunar á skólpi eins og tjarnir og votlendi.

Birt:
30. apríl 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Varis Bokalders og Maria Block „Lagnir og kerfi“, Náttúran.is: 30. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/30/pipulagnir/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 11. júní 2014

Skilaboð: