Jarðvegur er mjög mikilvægur hluti af öllu vistkerfi Jarðar. Jarðvegur er stærsta kolefnisforðabúr Jarðar og hann er viðkvæmur fyrir mengun og loftslagsbreytingum. Jarðvegur hefur verið kallaður húð Jarðarinnar vegna mikilvægi síns en hann tengir saman andrúmsloftið, steinhvolfið, vatnshvolfið og lífhvolfið.

Í jarðveginum býr fjöldi lífvera og myndar jarðvegurinn heilt endurvinnslukerfi fyrir næringarefni og lífrænan úrgang. Einnig stjórnar jarðvegur víða vatnsgæðum og hefur áhrif á vöxt allra plantna og næringu þeirra. Ein lúkufylli af jarðvegi getur innihaldið milljarða lífvera sem tilheyra þúsundum tegunda. Lífverur í jarðveginum anda og skila þannig kolefni aftur út í andrúmsloftið. Sú staðreynd að jarðvegur getur verið vatnsgeymir er undirstaðan undir vatnsbúskap flestra plöntutegunda.

Jarðvegur getur fjarlægt mengun og brotið hana niður. Í jarðveginum verða til mörg mikilvæg næringarefni úr dauðu lífrænu efni. Næringarefni sem nýtast bæði plöntum og dýrum.

Það eru til margar mismunandi tegundir af jarðvegi. Á Íslandi er jarðvegurinn markaður af eldgosum og inniheldur hátt hlutfall ösku (eldfjallajarðvegur). Sýrustig jarðvegs skiptir verulega miklu máli þar sem það hefur áhrif á myndun næringarefna í jarðveginum. Bakteríur í jarðvegi sækja nitur úr loftinu sem síðan plöntur og dýr geta nýtt sér. Jarðvegur er almennt bestur ef sýrustig hans er tiltölulega hlutlaust og ef sveiflur í sýrustigi eru ekki of miklar.

Birt:
30. apríl 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Jarðvegur“, Náttúran.is: 30. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/30/forgrunnur-grjot/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 15. ágúst 2014

Skilaboð: