Jarðlög
Jarðfræðilega séð er Ísland ungt land eða um 20-25 milljón ára. Upphleðsla landsins hefur öll farið fram á síðari hluta nýlífsaldar. Landið er nær allt gert úr hraunlögum með setlögum á milli. Hraunlögin hafa hlaðist upp í eldgosum enda liggur Ísland á svokölluðum heitum reit þar sem eldgos eru tíðari en annarsstaðar. Jarðmyndunum Íslands er skipt gróflega í fernt. Elst er blágrýtismyndunin frá síðtertíer sem er yst á Vestfjörðum og austast á Austfjörðum. Næst að aldri er grágrýtismyndunin sem varð til á fyrri hluta ísaldar og móbergsmyndunin sem varð til á síðari hluta ísaldar. Þessar þrjár myndanir mynda í grófum dráttum berggrunn landsins sem fjórða og yngsta myndunin hvílir á. Hún er einkum gerð úr lausum jarðlögum svosem árseti, jarðvegi, gjósku og ungum hraunum.
Tertíeri hraunlagastaflinn hefur að mestu hlaðist upp í hraun- eða flæðigosum í kringum forn eldstöðvakerfi. Megineldstöðvarnar voru eldkeilur eða dyngjur sem síðan grófust í jarðlagastaflann.
Síðari hluti nýlífsaldar nefnist kvarter. Tímabilið skiptist í ísöld og nútíma. Frá upphafi ísaldar eru liðnar um 3,1 milljónir ára en frá lokum hennar um 10.000 ár. Á ísöld skiptust á kuldaskeið og hlýskeið. Á jökulskeiðum huldu jökulskildir landið en þó munu sennilega nokkur jökulsker og smá svæði, hafa verið íslaus. Móbergsfjöllin urðu til undir jökli og víða eru þykk setlög af jökulruðningi frá Ísöld.
Fyrir rúmum 18.000 árum tók að hlýna í veðri eftir fimbulkulda síðasta jökulskeiðs og jökulskjöldinn að leysa. Land reis úr sæ og sjórinn hörfaði. Fyrir um 10.000 árum var ísöld lokið og það hlýskeið sem enn ríkir tók við.
Birt:
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Jarðlög“, Náttúran.is: 30. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/30/jardlog/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 16. maí 2014