Skilagjald er öllum drykkjaumbúðum þ.e. áldósir, gler- og plastflöskur eru skilagjaldsskildar. Það þýðir að fyrir hverja framleidda dós/flösku þarf framleiðandi að borga 16 krónur í Úrvinnslusjóð. Þennan pening innheimtir framleiðandi síðan að sjálfsögðu hjá okkur með því að leggja hann á vöruna. Úrvinnslusjóður greiðir síðan til baka þessar 16 krónur til þess sem skilar umbúðunum á réttan stað, þ.e. til endurvinnslu. Gjaldið er hvatning til að skila umbúðunum aftur í hringrásina þannig að hráefnið endurnýtist en verði ekki að rusli. Rusl þarf að urða eða eyða á annan mengandi og kostnaðarsaman hátt og því er raunverulegur sparnaður og minna álag á umhverfið með skilagjaldskerfinu. Þú getur safnað og skilað og fengið peningana til baka hjá Endurvinnslunni hf. sem sér um að hringrásin virki. Margar hjálparsveitir og líknarfélög taka einnig á móti skilagjaldsskildum umbúðum sem þeir aftur selja í fjáröflunarskini.

Skilagjald er eingöngu greitt fyrir „drykkjaumbúðir“. Til drykkjaumbúða teljast: Vörur tilbúnar til drykkjar, undanskildar eru vörur sem innihalda mjólk enda eru umbúðir utan um mjólkurvörur oft samsettar og því ill- eða óendurvinnanlegar.

Áldósir, plastflöskur og glerflöskur skal flokka og telja eftir efnistegund. Að hámarki er tekið við 1000 einingum í einu á endurvinnslustöð. Framleiðsla úr endurunnum áldósum er nýjar áldósir. Úr gömlu plastflöskunum er framleidd polyester ull, efni sem t.d. nýtist í fataiðnaði og teppaframleiðslu og eru flísföt þekktasta afurðin. Glerflöskur eru muldar og nýtast sem jarðvegsfyllingarefni hérlendis.

Á Endurvinnslukortinu og app-útgáfu Endurvinnslukortsins eru allar upplýsingar um endurvinnslu og þá staði sem taka á móti skilagjaldsskyldum umbúðum.

Skoða Endurvinnslukortið 

Skoða app-útgáfu Endurvinnslukortsins.

Birt:
30. apríl 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Flöskur og dósir“, Náttúran.is: 30. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/30/floskurogdosir/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 7. ágúst 2015

Skilaboð: