Stór hluti tekna okkar fara í mat. Rétt geymsla matvæla skiptir því miklu máli, bæði til þess að hann skemmist ekki of fljótt og til þess að hann mengist ekki. Rétt kæling og frysting er að sjálfsögðu grunnatriði við annað en þurrvöru en það er ýmislegt annað sem að við verðum að hafa í huga.

Að nota réttar umbúðir:

  • Notaðu alltaf margnota umbúðir frekar en einnota
  • Notaðu aðeins ílát sem eru sérstaklega gerð til að geyma matvæli (auðkennt með glasi og gaffli hlið við hlið)
  • Gler og postulínsílát eru örugg fyrir allar gerðir matar
  • Ekki setja heit matvæli eða drykki í plastumbúðir nema þær sem eru ætlaðar fyrir heita vöru
  • Endurnýttu plastumbúðir utan af matvöru eins og kostur er en athugið að umbúðir utan af einni tegund matvöru hentar ekki endilega fyrir aðrar tegundir!
  • Látið plastfilmu aldrei komast í snertingu við matinn sjálfan því efni úr plastinu geta borist í matinn
  • Notið aðeins plastílát með plastmerkjunum 1, 2, 4 eða 5 en ekki ómerkt plast eða plast með númerin 3, 6 eða 7*

Sóun matvæla

Um þriðjungi alls matar sem við kaupum endar í ruslinu. Það er því í okkar eigin hag að byrja strax að gera okkur grein fyrir því hvað sóun matvæla er bjánalegt athæfi. Byrjum strax í dag!

Að henda mat þýðir í raun:

  • Peningaaustur, sem er eyðsla á okkar líftíma og lífsgæðum
  • Að sóa verðmætum sem annars gætu nýst á uppbyggilegan hátt; okkur sjálfum, öðru fólki eða dýrum, eða sem áburður fyrir ræktun matjurta
  • Aukin hlýnun andrúmsloftsins, því öll framleiðsla s.s. ræktun, uppskera, vöruframleiðsla og flutningar hafa í för með sér mikinn útblástur koltvísýrings og annarrra mengandi efnasambanda. Sóun á verðmætum málmum sem eru auðlindir sem flestar eru ekki endurnýjanlegar
  • Sóun á ræktarsvæðum jarðar, sem nú þegar eru orðin of lítil
  • Sóun á vatni, einni verðmætustu auðlind jarðar
  • Sóun á orku, sem er víðast hvar einnig óendurnýjanleg auðlind og þar sem hún er endurnýjanleg þarf samt að fórna náttúruperlum, byggja virkjanir og orkuflutningamannvirki til að koma orkunni á leiðarenda
  • Sóun á eldsneyti, oftast nær olíu. Við vitum öll að bruni jarðefnaeldsneytis er eitt stærsta vandamál nútímans
  • Sóun á umbúðum af öllum gerðum sem eykur á sorpvandamálið og þá mengun sem af henni hlýst á sjó og landi. Umbúðir eru flestar úr plasti eða pappír
  • Að henda mat er skaðlegt fyrir sanngirnisvitund okkar. Það getur aukið á grandvaraleysi gagnvart umheiminum og aukið á samviskubit okkar gagnvart manni og jörð

Frekar en að bíða eftir að lausnir komi að ofan, frá því opinbera, einhverntíma, með tilskipunum, þá þarf hver og einn að líta í eigin barm og endurmeta neyslu- og hegðurmynstur sitt gagnvart matvælum.

Allir eru einstaklingar og við verðum að taka ábyrgð á okkar gjörðum sem einstaklingar, því samfélag samanstendur alltaf af hópi einstaklinga.

Lausnir geta falist í:

  • Að geyma mat við rétt raka- og hitastig, þannig helst hann ferskari lengur
  • Að skoða reglulega í eldhússkápana, í frystinn og ísskápinn og klára það sem til er áður en meira er keypt inn
  • Að gera nákvæmar eða grófar áætlanir um það sem við ætlum að hafa í matinn yfir vikuna
  • Að gera innkaupalista áður en við förum að versla. Auðvitað eftir að við erum búin að skoða hvað er til og hvað ekki
  • Að fara ekki svöng í innkaupaleiðangur
  • Að passa okkur á mataruppskriftum sem innihalda hráefni sem við vitum að við notum sennilega aldrei aftur
  • Að vara okkur á að fjölmiðlum, dagblöðum, tímaritum og á vefsíðum eru söluaðilar að reyna að selja okkur ákveðnar vörur, ekki bara að gleðja fjölskylduna okkar með guðdómlegum uppskriftum sem gera okkur hamingjusöm
  • Að vega og meta verð og uppruna vörunnar og hvort að við þurfum virkilega á henni að halda og í þetta miklu magni áður en keypt er
  • Að nota afgangana næsta dag eða frysta strax og merkja ílátin með nafni á rétti og dagsetningu. Gamlir afgangar verða sjaldnast hitaðir upp á þarnæsta degi eða eftir það
  • Að gefa frekar með sér en henda, bjóða vinum í mat, jafnvel með stuttum fyrirvara ef við eldum allt of mikið
  • Að gefa vinum umframbirgðir og gleðja þannig okkur sjálf og þá
  • Að rækta eigið grænmeti og uppskera eftir þörfum. Frysta umframuppskeru til vetrarins, súrsa, sulta eða sjóða niður
  • Að henda ekki mat bara af því að síðasti söludagur er runninn upp. Egg geta t.d. geymst í fjölda mánaða, hunang í nokkrar aldir, niðursuðuvörur í nokkur ár, ostur í nokkrar vikur eða mánuði og mjólk í nokkra daga.

*plastmerkjunum 1, 2, 4 eða 5 en ekki ómerkt plast eða plast með númerin 3, 6 eða 7

Birt:
30. apríl 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Geymsla matvæla“, Náttúran.is: 30. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/30/geymsla-matvaela/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 11. ágúst 2014

Skilaboð: