Aukin tækni í samskiptum hefur minnkað þörfina fyrir óþarfa ferðalög. Fjarfundarbúnaður, samtöl með mynd í farsímum, skrifstofuveggir geta orðið skjáir og samskiptatæki. Þetta höfum við séð í Star Trek en nú er þessi tækni að verða raunveruleg.

Vinnufélagar og fjölskyldumeðlimir geta búið hver í sinni heimsálfu en verið samt í nánum daglegum samskiptum í gegnum miðla eins og Scype. Fjarlægðir hætta að skipta máli en þess í stað verður klukkan og tímabeltin mikilvægari.

Á vef Póst- og fjarskiptastofnunar eru hinar ýmsu gerðir nettenginga skýrðar:

Fastlínu nettengingar

  • ADSL tengingar. Hægt er að nýta hefðbundnar símalínur (kopar) og símanet til háhraðasendinga á gögnum til og frá viðskiptavinum sem eru í fastri áskrift. Notandinn þarf að fá ADSL beini (e. router) til að geta verið áskrifandi að ADSL-þjónustu sem felur í sér háhraðaflutning á gögnum og myndefni, gagnvirka margmiðlun og fl.
  • VDSL tengingar. Ljósleiðari er notaður til að flytja gögn að tengikassa í götu.  Frá götu og inn í hús til notanda fara gögnin um hefðbundnar símalínur (kopar). Notandinn þarf að fá VDSL beini (e. router) til að geta verið áskrifandi að VDSL-þjónustu sem felur í sér háhraðaflutning á gögnum og myndefni, gagnvirka margmiðlun og fl.
  • Ljósleiðari. Ljósleiðarar hafa mestu flutningsgetu fyrir stafræn gögn í tvær áttir, þ.e. til og frá notandanum.
    Á ljósleiðara er hægt að senda tugi sjónvarpsrása og stórar gagnasendingar fyrir gagnvirk samskipti. Verið er að leggja ljósleiðara á þéttbýlissvæðum hér á landi s.s. í Reykjavík og Akureyri. Enn sem komið er takmarkast gagnaflutningar á ljósleiðaranetum við hverfi og þéttbýliskjarna.
  • Kapalsjónvarp. Dreifing á sjónvarpsefni er algeng breiðbandsþjónusta. Sjónvarpsrásum er þá dreift um lokuð kapalkerfi í fjölbýlishúsum, hverfum eða minni þéttbýliskjörnum. Kapalkerfin hafa í fæstum tilfellum verið uppfærð þannig að þau geti annað öðrum gagnaflutningum samhliða sjónvarpssendingum, en þó eru dæmi um að boðið sé upp á símaþjónustu og háhraðatengingar á kapalkerfum.
  • Stafrænt sjónvarp. Með stafrænum sjónvarpssendingum opnast sá möguleiki að dreifa myndefni á nýjum leiðum t.d. um fastlínunetið, á ljósleiðara og með örbylgjusendingum í loftinu.

Þráðlausar nettengingar

  • UMTS – háhraða-farþjónusta (3G / 4G). Talað er um aðra, þriðju og fjórðu kynslóð farsímakerfa, þ.e. GSM (2G) og síðan 3G og 4G.  Með hverri kynslóð margfaldast magn og hraði gagnaflutninga. Með tilkomu 3G og síðan 4G kerfa  hefur opnast möguleiki á því að byggja upp háhraða-farnet um allt land. Kveðið er á um slíka uppbyggingu í fjarskiptaáætlunum.
  • WLAN – Þráðlaus net
    Skammdrægar örbygjusendingar á þráðlausum netum geta haft mikla flutningsgetu og þykja henta vel fyrir fyrirtæki og stofnanir. Á þráðlausum netum er hægt að senda gögn á útvarpstíðnum sem eru ekki leyfisskyldar. Það ræðst af flutningsgetu um netgátt á Internetið hvaða burðargetu þráðlausa netið hefur. Þráðlaus net fyrir tölvunotendur hafa verið sett upp víða.
Birt:
April 30, 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Einar Einarsson „Nettenging“, Náttúran.is: April 30, 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/30/nettenging/ [Skoðað:Dec. 11, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: May 16, 2014

Messages: