Með skipulagi heimafyrir getur flokkunin verið skemmtileg fyrir alla fjölskyldumeðlimi að taka þátt í. Að hrúga öllu upp í bílskúrinn, kjallarann eða herbergi er ekki góð aðferð.

Til að flokkunin heppnist og gangi snurðulaust fyrir sig, er gott að útbúa eða fjárfesta í kössum fyrir hina ýmsu flokka. Merkt ílát hvort sem það eru pokar eða önnur ílát einfalda flokkkunina mjög.

En af hverju að flokka og endurvinna?
Auðlindir heims eru að þverra vegna vaxandi fólksfjölgunar og mikillar neyslu. Vegna veldisvaxtar fólksins á Jörðinni sem nú hefur náð sjö milljörðum, eykst neysla á hráefnum einnig í veldisvexti. Veldisvöxtur hráefna á Jörðu með takmarkað flatarmál getur ekki gengið endalaust.

Það kemur að þeim tímamótum að hámarksframleiðsla verður. Vegna veldisvaxtarins í neyslu erum við komin fram yfir hámarksframleiðslu t.d. gulls (2000), fosfats (2000) og olíu (2005) og við nálgumst hámarksframleiðslu flestra annarra efna, þar á meðal járns, innan fjörtíu ára. Hámarksframleiðsla verður fyrir blý 2020, járn, silfur, sínk og platínu 2030, kopar 2040 og nikkel, króm og indíum 2050.

Hámarksframleiðsla þýðir að 50% af efninu hefur verið unnið. Ef við höldum áfram á sömu braut munum við ekki eiga þau efni sem við byggjum okkar nútímatækniþjóðfélag á í lok þessarar aldar. Eina leiðin til að auka nýtinguna, er að loka efnishringjum með því að endurvinna öll hráefni. Úrgangur er því ekki rusl, heldur hráefni til endurvinnslu eða til annarra nota í náttúrunni eða í iðnaði. Ef við náum yfir 98% endurvinnslu allra efna, og minnkum fólksfjölda úr sjö núverandi milljörðum í þrjá milljarða, þá geta þessi efni enst í þúsundir ára, jafnvel tugþúsundir.

Þegar komið er að hámarksframleiðslu eru önnur 50% eftir til að vinna en þegar eftirspurn verður meiri en framleiðsla hækkar verðið. Eina leiðin til þess að ná löngum nýtingartíma hráefna er að endurvinna þau. Þess vegna verðum við öll að leggjast á eitt til að koma úrgangsefnum okkar til endurvinnslu. Með sameinuðu átaki getum við náð miklum árangri.

Á Endurvinnslukortinu og app-útgáfu Endurvinnslukortsins sérð þú allt um endurvinnsluflokkana og þá staði sem taka á móti hverjum þeirra.

Skoða Endurvinnslukortið. 

Skoða app-útgáfu Endurvinnslukortsins.

Birt:
30. apríl 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Kristín Vala Ragnarsdóttir „Flokkunarílát“, Náttúran.is: 30. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/30/flokkunarilat/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. júní 2014

Skilaboð: