Tunglið eða máninn er eini náttúrulegi fylgihnöttur jarðarinnar og nálægasta fyrirbæri himinsins ef frá eru talin geimför og gervitungl. Tunglið er bjartasti hnötturinn á næturhimninum og sá eini þar sem við getum skoðað landslagið með berum augum.

Saga tunglsins er nátengd sögu jarðarinnar enda er talið að það hafi myndast þegar hnöttur á stærð við Mars rakst á jörðina skömmu eftir myndun sólkerfisins. Tunglið hefur líka sögulega þýðingu fyrir okkur mannfólkið því það er eini hnötturinn sem menn hafa stigið niður fæti utan jarðarinnar.

Tunglið snýr alltaf sömu hlið sinni að jörðinni. Þess vegna sjáum við ætíð sömu landslagseinkenni á tunglinu, sama hvenær við horfum á það — eini munurinn er frá hvaða horni sólin lýsir upp yfirborðið.

Tunglið snýr alltaf sömu hliðinni að jörðinni vegna þess að það snýst. Ástæðan er sú að möndulsnúningur tunglsins er jafn langur umferðartímanum um jörðina. Með öðrum orðum: Á sama tíma og tunglið snýst einn hring um sjálft sig, snýst það einn hring umhverfis jörðina. Þetta kallast bundinn möndulsnúningur og er afleiðing flóðkrafta milli jarðar og tunglsins.

Sævar Helgi Bragason (2011). Tunglið. Stjörnufræðivefurinn stjornufraedi.is (sótt 21.05.2014)

 

Birt:
30. apríl 2014
Tilvitnun:
Sævar Helgi Bragason „Tunglið“, Náttúran.is: 30. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/30/tunglid/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 31. júlí 2014

Skilaboð: