Í dag fórum við hjá Náttúran.is með 2064 Græn kort í póst, fjögur eintök í hvern einasta skóla á landinu, samtals 516 skóla, allt frá leikskólum til háskóla. Sendingunum fylgdi svohljóðandi bréf:

Kæru skólastjórnendur.

Græna kortið er afrakstur áralangrar vinnu við rannsóknir og gagnasöfnun um stofnanir, félög, verkefni, þjónustu- og framleiðslufyrirtæki sem og náttúrufyrirbæri sem falla undir flokkunarkerfi Green Map® System en það er alþjóðlegt kerfi sem byggir á myndtáknum og viðmiðum sem gilda á heimsvísu en græn kort hafa verið þróuð í yfir 65 löndum.
Sjá greenmap.org.

Ástæða þess að við hjá Náttúran.is tókumst á hendur að kortleggja Ísland út frá Grænkortakerfinu var að við höfðum þá þegar árið 2008 unnið mikið starf við að skrá og skilgreina stöðu mála hér á landi út frá hinum þremur stoðum sjálfbærrar þróunar og færa í gagnagrunna til birtingar á Grænum síðum á vef Náttúrunnar. Við leituðum síðan eftir alþjóðlegu kerfi til að birta á korti og fundum góða lausn í Green Map® System kerfinu. Síðan þá höfum við haft náið samstarf við fagaðila við Háskóla Íslands við aðlögun flokkunarkerfisins að íslenskum aðstæðum.

Í okkar huga er Græna kortið svo mikilvægt því að ekki er hægt að ætlast til þess að allur almenningur og fyrirtæki í landinu geti valið vistvæna kosti ef upplýsingar um þá eru ekki til.

Við höfum fundið fyrir miklum áhuga á Græna kortinu hjá kennurum sbr. kynningu á Grænfánafundi Landverndar í Hörpu í október 2013 þar sem Græna kortinu var dreift til þátttakenda. Í framhaldi veitti Mennta- og menningarmálaráðuneytið styrk svo senda mætti öllum skólum landsins fjögur eintök af Grænum kortum sem er hægt að nýta í skólastarfinu og styðja þannig við menntun til sjálfbærrar þróunar sem er einn af sex grunnþáttum í nýrri aðalnámskrá leik, grunn og framhaldsskóla.

Græna kortið er einmitt byggt á grunnþáttunum sem mynda hin þrjú svið sjáfbærrar þróunar þ.e. hagkerfi, náttúru og samfélag. Þar sem kortið sýnir bæði allt Ísland og Reykjavík og nágrenni sendum við ykkur fjögur eintök svo hægt sé að sýna báðar hliðar og hafa kortin þá t.d. uppihangandi á tveim stöðum í skólanum.

Prentaða útgáfan sem við sendum ykkar skóla nú sýnir 1200 skráða aðila og svæði/fyrirbæri í 75 flokkum.
Græna kortið á gagnvirkum vef er með 3.387 skráða aðila og 637 svæði/fyrirbæri í yfir 200 Grænkortaflokkum sem birtist á fimm tungumálum, íslensku, ensku, þýsku, ítölsku og frönsku. Vefútgáfan er skalanleg á handtæki og sérstakt app er í vinnslu. Sjá natturan.is/gm/.

Vefurinn Náttúran.is getur ennfremur nýst sem viðbót til enn frekari umhverfisfræðslu eða þemavinnu í skólastarfinu almennt. Á vefnum má finna mikið magn upplýsinga. Auk þess höfum við þróað Endurvinnslukorts app, natturan.is/apps sem gæti einnig nýst vel í kennslu en þar er frætt um alla endurvinnsluflokkana og alla staði á landinu sem taka við endurvinnanlegu sorpi.

Nú erum við að þróa nýtt app um allt á heimilinu „Húsið og umhverfið“ sem er sérstaklega ætlað skólabörnum og hlaut verkefnsisstyrk frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í ár. Frá því munum við segja nánar í byrjun næsta skólaárs.

Með von um að Græna kortið nýtist ykkar skóla vel og með kærri kveðju,

Guðrún Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Náttúran.is.Mynd: Íslandshlið Græna kortsins.

Birt:
28. apríl 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Náttúran.is sendir öllum skólum landsins Græn kort“, Náttúran.is: 28. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/28/natturan-sendir-ollum-skolum-landsins-graen-kort/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: