Rauðsmára fann ég á Akureyri í vegkanti á leiðinni inn í Kjarnaskóg. Þannig umhverfi vill hann hjá mér. Mest sand og svolitla mold. Aðrar plöntur reyna að troða sér inn á hans svæði til að athuga af hverju hann unir sér svona vel en hann heldur þó sínu. Smári er yfirleitt ekki talinn matplanta en eitthvað mun hann þó hafa verið etinn. Blöð af hvaða smára sem er, sérstaklega ef þau eru sterkmunstruð, má hafa í te og sé það drukkið að minnsta kosti í heila viku rétt í þann mund sem sólin sest, þá munu hin róandi áhrif smárans koma í ljós. Það skeður afar margt þegar geislar sólarinnar eru rétt að hverfa niður fyrir sjóndeildarhringinn, bjöllur hljóma skærar og musteriseldar brenna af margfaldri orku, því geislar hnígandi sólarinnar mynda þá rétt horn við útgeislun jarðar. Það er ekki nema von að Írar, með sitt kvika, keltneska eðli, velji sér smáralauf fyrir þjóðarblóm. Blóm rauðsmárans eru ekki bragðmikil en hafa orð á sér, eins og fleiri rauðar plöntur, fyrir að vinna gegn krabbameini.

Úr bókinni Ætigarðurinn - handbók grasnytjungsins eftir Hildi Hákonardóttur.

Ljósmynd: Rauðsmári [Trifolium pratense], ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
29. júní 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Rauðsmári – Trifolium pratense“, Náttúran.is: 29. júní 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/27/raudsmari/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 27. apríl 2014
breytt: 29. júní 2014

Skilaboð: