Lóan er komin. En ekki aðeins hún. Á fuglar.is segir:

Mikið kom af farfuglum á suðausturland í dag (15. apríl 2014), stanslaust flug heiðlóa, hrossagauka, stelka og heiðargæsa. Frá Höfn og í Suðursveit mátti sjá tugi hópa af hrossagaukum svona 20-50 saman, mörg hundruð heiðlóur í svona 50-200 fugla hópum. töluvert er komið af heiðargæsum og komu margir hópar inn á dag, nokkrar blesgæsir og helsingjar voru hér og þar á leiðinn frá Höfn og í Öræfin en mest var við Holta bæina á Mýrum t.d. 100 fugla helsingja hópur og svo annar um 50 fuglar og þar voru líka 50-60 blesgæsir. Gargandarpar var á Jökulsárlóni og þar sáust einig 3 sandlóur. á Stekkakeldu og Flóanum á Höfn (á flóði) voru yfir 1000 jaðrakanar, 1000-1500 stelkar, 60-70 sandlóur, heiðlóur, tildrur, lóuþræll, brandendur, tjaldar, stormmáfar um 120 hettumáfar, sílamáfar og nokkrir þúfutittlingar. á Sílavík á Höfn var lóuþræll og nokkrar sandlóur. Utan við Ósland á Höfn voru 9 margæsir, nokkrar rauðhöfðaendur og tveir jaðrakanahópar komu fljugandi af hafi einnig heiðlóuhópar og hrossagaukshópar. Brandendur sáust neðan við sléttaleiti í Suðursveit.

Lóan hefur lengi verið okkar helsti vorboði. Sagt er í þekktu ljóði að hún komi og kveði burt snjóinn og leiðindin en lóan hefur oft verið yrkisefni skálda. Lóan er algengur varpfugl hér á landi og er stofn hennar sterkur. Hún er farfugl og sjást fyrstu lóurnar oftast í lok mars eða byrjun apríl. Hún heldur sig að fyrstu við ósar og ár en kjörlendi lóunnar eru móar og melir þar sem hún verpir. Sagt er að hegðun lóunnar geti sagt til um veður.

Teikning: Lóa eftir Jón Reykdal.

Birt:
17. apríl 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Lóan er komin“, Náttúran.is: 17. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/17/loan-er-komin/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: