Tilgangur Endurvinnslukortsins er að fræða almenning um endurvinnslu og gefa eins fullkomið yfirlit og mögulegt er yfir hvar á landinu sé tekið við hverjum endurvinnsluflokki. Í raun er nú engin afsökun lengur til fyrir því að flokka ekki sorpið sitt og koma því til endurvinnslu.

Staðreyndin er sú, að það sem áður var skilgreint sem úrgangur eða sorp er í dag talið vera hráefni eða auðlind fyrir aðra framleiðslu. Úrgangur og sorp er ekkert annað en auðlind á villigötum. Næstum allt er hægt að endurnýta eða endurvinna. Lykillinn er að flokka úrgang rétt til að það sé mögulegt. Röng flokkun getur gert það að verkum að ómögulegt sé að endurvinna úrgang á síðari stigum. Með endurvinnslu minnkar einnig þörfin á urðun sem minnkar áhættu á jarðvegsmengun. Urðun er einnig dýr fyrir samfélagið og þar með fyrir okkur öll.

Best af öllu er hins vegar að forðast að kaupa „rusl“. Hversu oft er ekki verið að kaupa umbúðir sem fara beint í ruslið þegar heim er komið. Helstu endurvinnsluflokkar eru skilgreindir af hverju sveitarfélagi fyrir sig og er þar stuðst við Fenúr flokkunarmerkingar.

Hér á Endurvinnslukortinu finnur þú nánari upplýsingar um alla endurvinnsluflokka, bæði Fenúr flokkunarmerkin (grænar skýringarmyndir) og aukaflokka (svart-hvítar skýringarmyndir) sem Náttúran hefur útbúið til að hjálpa þér að finna upplýsingar um annað sem má eða má ekki endurvinna eða endurnýta á Íslandi í dag.

Náðu þér í Endurvinnslukorts-appið fyrir iPad og iPhone ókeypis í App Store.

Endurvinnslukort – Ísland. Framleiðandi Náttúran er ehf. 2014. Endurvinnslukortið™ er skrásett vörumerki Náttúran er ehf. ©Náttúran er ehf. 2014. Öll réttindi áskilin.

Birt:
3. apríl 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Endurvinnslukort – Ísland“, Náttúran.is: 3. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/03/endurvinnslukort-island/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 4. apríl 2014

Skilaboð: