Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar styrkir Landvernd og NSÍ um 24 miljónir
Grímur Atlason stjórnandi tónleikanna Stopp - gætum garðsins talar á blaðamannafundi þar sem styrkveitingar til Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands voru kynntar. Auk hans má sjá Andra Snæ Magnason rithöfund, Björk Guðmundsdóttur söngkonu og tónskáld, Darren Aronofsky leikstjóra m.a. myndarinnar um Nóa sem frumsýnd var í samhengi við tónleikana, Patty Smith söngkonu, Árna Finnsson formann Náttúruverndasamtaka Íslands og Guðmund Inga Guðbrandsson framkvæmdastjóra Landverndar.
Ágóði af tónleikunum og frumsýningu Nóa rann einnig til félaganna og nam styrkur þessara aðila allra um 35 miljónum króna.
Þess má geta í þessu samhengi að í drögum að skýrslu Umhverfisráðuneytis um innleiðingu Árósasamningsins er sagt að ríkið styrki umhverfisvernd um 13 miljónir á ári og því ljóst að mikill fengur er af þessu fé.
Féð verður notað í sameiningu til að efla baráttuna og vitund almennngs um raunverulega stöðu umhverfismála á Íslandi. Með sérstaka áherslu á óspillt víðerni hálendis Íslands.
Mikill andi var á tónleikunum og barátturhugur í fólki sem sumt táraðist við tilhugsunina um eyðileggingu hálendisins og tortímingu þeirrar auðlindar sem við eigum mörgum öðrum löndum fremur, – óspillta náttúru og heil víðerni án mannvirkja sem skerða sjóndeildarhringinn og þá upplifun sem því fylgir að standa andspænis náttúrunni í allri sinni dýrð.
Norðmenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að útivist í óspilltri náttúru sé einhver besta heilsubót sem völ er á og dvöl í víðernum dragi verulega úr notkun þunglyndislyfja og öðrum fylgikvillum nútíma borgarlífs.
Hér má sjá stutt viðtal í Grænvarpinu við Andra Snæ að loknum fundi.
Ljósmynd: Þórhildur Heimisdóttir
Birt:
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar styrkir Landvernd og NSÍ um 24 miljónir“, Náttúran.is: 19. mars 2014 URL: http://nature.is/d/2014/03/19/natturusjodur-palma-jonssonar-styrkir-landvernd-og/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.