Læra má margt af forfeðrunum. Máltækið segir að neyðin kenni naktri konu að spinna. Það á við um hin víðfrægu útileguhjón Fjalla-Eyvind og Höllu. Á áratuga langri útilegu sinni hafa þau sannanlega þurft að vera margslungin og nýta náttúruna til að lifa af ofsafengna vetri á víðavangi. Margt góðra ráða er að finna í textum um líferni hjónakornanna harðgeru svosem að hlaða hveri sem eldstæði og byggja bú yfir rennandi læk.

“En hvernig skyldi Eyvindur hafa getað notfært sér allan þennan sauðamat vetrarlangt eins og hann mun hafa ætlað, svo hinn grimmi vetur eyðilegði ekki allt saman og hungrið biði á næsta leiti?

Þá voru allt aðrar aðstæður en nú og ekkert varð sótt í kaupstað, hvorki salt né annað krydd og ekki heldur tunnur undir slátur. Þarna voru stórir hrískestir, um 30 hestburðir. Í þeim var kjötinu komið haglega fyrir, þannig að annað lagið var af hrísi en hitt af kjöti. Þurrkaði fjallablærinn þá kjötið og forðaði því frá að úldna eða slepja. Fjórir hestburðir voru þarna af mör og mátti hnoða hann, þoldi hann þá geymslu allan veturinn. Einn hestburður af ristlum var þarna, reita mátti af þeim mörinn og í öðrulagi mátti hafa þá í lundabagga og einnig í kjötbjúgu, sem er þó líklega sami rétturinn, þó Eggert Ólafson nefni það kjötbjúgu og þekkti vel slíka matargerð og segir að hjörtu hafi einnig verið notuð í bjúgun. Þennan rétt mátti borða reyktan, súrsaðan og einnig soðinn nýjan sem hvert annað slátur. Svið munu þá hafa verið meðhöndluð á svipaðan hátt og venja var til skamms tíma: hausarnir geymdir með ullinni á fram eftir hausti, en svo klippir og sviðnir við hægan eld og soðnir svo. Sviðin voru oft hálfúldin, en það þótti bara betra.

Eyvindur reið vatnsþéttar körfur úr víðitágum og notaði undir slátur að vetrinum. Af melkorni og fjallagrösum mátti vel laga slátur og geyma í vatnssýru, því vatn dregur í sig sýru af mjöli því sem í slátrinu er, einnig gátu þau notað mjólkursýru ef þau færðu frá að sumrinu, en það er sennilegt, og einu sinni sást til Höllu austur á landi þar sem hún var að mjólka kindur.

Eggert Ólafsson segir á þessum tíma að meðal ær mjólki pott í mál en góð ær 2 potta. Skyr var víða borðað kvölds og morgna með berjum, grasagraut og mjólk. Þá segir Eggert einnig að ber séu geymd í vatni í stórum ílátum. Allmikil líkindi eru til þess að Eyvindur hafi haft hesta hjá sér um vetur, en nægt hagaganga var fyrir hesta í Arnarfellsmúlum í sæmilegu árferði. Víðilauf og ýmiskonar kvistur var ágætt fóður fyrir hross. Hestunum mátti svo slátra þegar hentaði og var hesturinn þannig þeirra lífeyrissjóður, þegar harnaði á dalnum, enda eru allsstaðar hrossabein þar sem ætlað er að Eyvindur hafi haldið til eitthvað að ráði.

Skinn mátti súta með legi af víðilaufi og blek var búið til úr sama efni. Hrossaflot var haft fyrir lýsi á lampana, sem stundum voru holir trédrumbar, og kveikir snúnir saman úr fífu og tvinnaðir.

Með eldstáli mátti kveikja eld og það var trúa manna, að eld mætti fela í ösku af eini í heilt ár. Það var ekki á allra færi að meðhöndla þessi gögn, en snillingur eins og Fjalla-Eyvindur var ekki í neinum vandræðum með það að öllu jöfnu.”

Úr Saga Fjalla-Eyvindar eftir Guðmund G. Guðmundsson, Prentsmiðjan Leiftur hf. 1970. Bls 99-101. 

Ljósmynd: Fylgsni Fjalla-Eyvindar og Höllu í Herðubreiðarlindum, af ferlir.is.

Birt:
7. mars 2015
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Hulda Pálsdóttir „Úr brunni Fjalla-Eyvindar“, Náttúran.is: 7. mars 2015 URL: http://nature.is/d/2014/03/14/ur-brunni-fjalla-eyvindar/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 14. mars 2014
breytt: 7. mars 2015

Skilaboð: