Sala á náttúrupassa hefst um næstu áramót náist samstaða um fyrirkomulagið, segir Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra ferðamála. Þrír gjaldflokkar yrðu í boði. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar er fylgjandi gjaldtöku, en mótfallinn náttúrupassanum

Hugmyndin er að náttúrupassi kosti, 2000 krónur fyrir fjóra daga, 3000 krónur fyrir mánuð og 5000 krónur fyrir fimm ára passa. Fyrstu drög að frumvarpi eru nú hjá stórum samráðshópi sem á að skila umsögnum og ábendingum. Frá þessu greindi Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála í Kastljósi í gær.  Hún sagði að þetta væri sú leið sem hún leggði til. „Ef ég finn að það er ekki víðtækur stuðningur við það þá þarf ég að taka stöðuna þegar þar að kemur. Ég finn fyrir miklum stuðningi eftir því sem ég tala um málið við fleiri.  Menn hafa áhyggjur af almannaréttinum, menn hafa áhyggjur af Íslendingunum, en þá er það okkar að sannfæra um að þær áhyggjur eru ekki einskorðaðar við þessa leið. Ef við lítum til skoðanakannana þar sem yfir 80% landsmanna eru hlynnt gjaldtöku þá er það að svara, við erum tilbúin að greiða líka.“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson framkvæmdastjóri Landverndar er í samráðshópnum fyrir hönd nokkurra útivistarfélaga. Hann segir að samtökin séu fylgjandi gjaldtöku af ferðamönnum, en ósátt við hugmyndina um náttúrupassa. Samtökin telji að náttúrupassi myndi ganga gegn rétti almennings til að fara um landið og njóta náttúrunnar. „Ráðherra hefur ekki verið til viðræðu um það að útfæra fleiri leiðir en þessa náttúrupassaleið og það erum við afskaplega ósátt við því við teljum að við getum náð betri sátt og það sé heillavænlegra að útfæra allar leiðirnar, bera þær saman og taka síðan ákvörðun í framhaldinu. Ég óttast svolítið að ef það verður farið rukka annað hvort með náttúrupassa þar sem mörg svæði eru inn í og ég tala nú ekki um það, sem er það versta ef að hvert svæði fer að rukka fyrir sig, að þá myndist ákveðin gjá á milli ferðaþjónustunnar í landinu og fólksins.“

Ljósmynd: Þingvellir. Ljósmyndari: Árni Tryggvason.

Birt:
14. mars 2014
Höfundur:
Rúv
Tilvitnun:
Rúv „Landvernd mótfallin náttúrupassa“, Náttúran.is: 14. mars 2014 URL: http://nature.is/d/2014/03/14/landvernd-motfallin-natturupassa/ [Skoðað:23. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: