Norðurlandaráð auglýsir nú eftir tilnefningum til náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2014.

Í ár verða verðlaunin veitt í 20. sinn. Verðlaunin nema 350 þúsund danskra króna.

Einu sinni hefur íslenskt fyrirtæki hlotið verðlaunin en það var Marorka sem fékk verðlaunin árið 2008 fyrir nýsköpun á sviði orkusparnaðartækni (Sjá grein). Á sl. ári fékk Selina Juul verðlaunin en hún hefur um árabil unnið að verkefninu Stop spild af mad sem felur í sér að upplýsa fólk um mikilvægi þess að sóa ekki mat (sjá grein).

Í ár verða verðlaunin veitt sveitarfélagi, bæjarfélagi eða nærsamfélagi sem hefur með samstilltu átaki lagt sitt af mörkum fyrir umhverfið í heild eða stuðlað að úrbótum varðandi afmarkað umhverfismál.

Fresturinn til að senda inn tillögur rennur út þann 23. apríl og verður listi yfir tilnefnda opinberaður þann 12. júní næstkomandi. Tilkynnt verður um verðlaunahafa á þingi Norðurlandaráðs í lok október í Stokkhólmi þar sem verðlaunin verða afhent.

Hægt er að tilnefna sveitarfélag, bæjarfélag eða nærsamfélag á þartilgerðu eyðublaði á heimasíðu Norðurlandaráðs.

Birt:
March 6, 2014
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs“, Náttúran.is: March 6, 2014 URL: http://nature.is/d/2014/03/06/oskad-eftir-tilnefningum-til-umhverfisverdlauna-no/ [Skoðað:June 16, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: