Ókeypis sáðbakkar!
Verð á plast-sáðbökkum í garðyrkjuverslunum hér á landi eru oft óheyrilega há. Sáðbakkar eru þó hvorki verkfræðileg afrek né dýrir í framleiðslu. Reynum því að hugsa aðeins út fyrir boxið, í orðsins fyllstu merkingu.
Á flestum heimilum safnast upp mikið af plastumbúðum sem eru mjög heppilegar sem sáðbakkar. Plastbökkum utan af matvörum s.s. utan af salati, kjöthakki, grillkjúkling, bakkelsi, sushi eða öðru. Best eru plastílátin sem eru með glæru loki því fyrstu dagana eftir sáningu er gott að halda rakanum vel að fræjunum.
Plastumbúðir sem ætlaðar eru til geymslu matvæla eru líka nógu góðar til að rækta mat í. Um er að ræða plast auðkennt með númerunum 1, 2, 4 eða 5 innan í þríhyrningi (sjá nánar um plastmerkingar hér).
Endurnýting plastumbúða er hagstæð bæði fyrir heimilið og umhverfið. Það er helst að mengun sé af plastinu til lengri tíma en hún verður allavega mun minni ef við reynum að kaupa minna plast og nýta það plast sem fellur til sem allra best áður en það fer í endurvinnslu. Munum að plast er framleitt úr olíu!
Ljósmynd: Plastbakkar utan af kjöthakki, grillkjúkling, sushi og bakkelsi. Ljósmyndari: Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Ókeypis sáðbakkar!“, Náttúran.is: 8. mars 2015 URL: http://nature.is/d/2014/03/04/okeypis-sadbakkar/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 4. mars 2014
breytt: 8. mars 2015