Gengið í náttúrunni, 18. maí 2014
Fararstjórar: Páll Guðmundsson og Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Ferð í samstarfi við Landvernd þar sem farið er yfir helstu umgengnisreglur ferðamanna í náttúrunni, sérstaklega út frá sjónarhóli göngufólks. Gengið um merktar og ómerktar gönguleiðir og farið yfir það hvar má ganga og hvar má ekki ganga og hvað göngufólk þarf að hafa í huga til að tryggja góða umgengni í náttúrunni. 3-4 klst.
 
Háhitasvæði á Reykjanesskaga, 22. júní 2014
Fararstjóri: Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur.
Ferð í samstarfi við Landvernd sem hefst á fyrirlestri um jarðfræði Reykjanesskagans og hugmyndir um jarðhitavirkjanir á svæðinu. Að því loknu er ekið með rútu um Afstapahraun að Höskuldarvöllum og Trölladyngju. Gengið upp á Eldborg og jarðhitasvæðið við borholu HS Orku skoðað ásamt sprengigíg og gengið upp í Sogin og að Spákonuvatni þar sem er gott útsýni yfir gígasvæðið undir Núpshlíðarhálsi, Hverinn eina og Sandfell. Keyrt og stoppað hjá Eldvörpum og Svartsengi áður en ekið er að Krýsuvíkursvæðinu þar sem gengið verður upp á Sveifluháls. Á öllum stöðunum er farið yfir jarðfræðina og hugmyndir um orkunýtingu.
 
Hálendið - Náttúruperlur í Vestur-Skaftafellssýslu, 3-6. júlí 2014
Fararstjórar: Vigfús Gunnar Gíslason, Gísli Már Gíslason og Þóra Ellen Þórhallsdóttir auk heimamanna. Hámarksfjöldi: 30.
Trússuð tjaldferð í samstarfi við Landvernd þar sem gengið er meðfram Hólmsá alla dagana. Ferðin hefst þar sem Hólmsáin, straumhart og mórautt jökulfljót, fellur í Flögulón. Ofar er hún vatnsmikið bergvatn með ótal fossum og hólmum og við Brytalæki er komið í tærar lindir. Ferðin endar við upptök árinnar í suðurhlíðum Torfajökuls. Alla daga þarf að vaða en aldrei djúpt eða straumþungt vatn. Tjaldsvæði og svefnpokagisting í boði í Tunguseli fyrir og eftir ferð en ekki innifalið í verði.
 
Hengilssvæðið, 21. september 2014
Leiðsögumenn: Einar Gunnlaugsson og Jón S. Ólafsson. Fararstjóri: Rannveig Magnúsdóttir.
Ferð í samstarfi við Landvernd um hið litríka Hengilssvæði. Ekið upp á Hellisheiði og upp á Skarðsmýrarfjall. Gengið austur eftir fjallinu og niður um stórt misgengi í Þrengsli norðan við fjallið og niður í Miðdal til að skoða jarðhitann og lífríki Hengladalsár. Þaðan er gengið inn í Fremstadal og austur yfir Ölkelduhálsinn. Stoppað í Klambragili þar sem hægt verður að baða sig í heitum læk og göngunni lýkur undir Rjúpnabrekkum við Hveragerði. 5-6 klst. Auðveld ganga sem hentar öllum aldri.

Ljósmynd: Í Grændal. Landvernd.

Birt:
28. febrúar 2014
Höfundur:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Ferðir með Landvernd og Ferðafélagi Íslands í sumar“, Náttúran.is: 28. febrúar 2014 URL: http://nature.is/d/2014/02/28/ferdir-med-landvernd-og-ferdafelagi-islands-i-suma/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: