Steinunn Harðardóttir

Þáttastjórn Með náttúrunni

Steinunn Harðardóttir gekk til liðs við Náttúruna og stjórnaði þáttaröðinni „Með náttúrunni“ í Grænvarpinu á árunum 2014-2015, Grænvarpið er þjónustuliður þar sem áherslan er á vandaðar umfjallanir sem snerta samfélags-, ferða- og umhverfismál líðandi stundar. Grænvarpið leggur ekki síst áherslu á viðtöl við fólk sem er að gera spennandi og uppbyggilega hluti í samfélaginu.

Um Steinunni Harðardóttur:

Steinunn Harðardóttir er með BA í almennri þjóðfélagsfræði og hefur verið stundakennari á ýmsum skólastigum, haldið sjálfstyrkingarnámskeið, starfað sem leiðsögumaður og síðustu 25 ár sem dagskrárgerðarmaður á Ríkisútvarpinu. Lengst af var hún með þætti sem tengjast náttúrunni, útivist og ferðamálum. Þátturinn „Út um græna grundu“ hafði verið 18 ár á dagskrá þegar hann hætti haustið 2013 og átti þá stóran hlustendahóp. Hann hlaut viðurkenningu Umhverfiráðuneytisins fyrir umfjöllun um umhverfismál 1998 og var tilnefndur til fjölmiðlaverðlauna á Degi íslenskrar náttúru 2011. Í starfi dagskrárgerðarmannsins öðlaðist Steinunn breiða þekkingu á jarðfræði, landafræði, lífríki og sögu í hinum fjölbreyttu byggðum og hefur ferðast vítt og breitt um landið og rætt við fólk um  ýmis landssvæði, sögu þeirra og menningu.        

Frá 1991 hefur hún skipulagt fjölbreyttar gönguferðir erlendis fyrir hundruð Íslendinga undir nafninu Göngu-Hrólfur og  nú í samvinnu við Vitasport um það verkefni. Hún hefur verið leiðsögumaður frá 1984 og ferðast með ótal erlenda ferðamenn um Ísland. Undanfarna þrjá vetur hefur hún farið fjölmargar norðurljósaferðir og finnst það alltaf jafn skemmtilegt jafnvel þó ljósin láti ekki sjá sig.

Ljósmynd: Steinunn Harðardóttir.

 

Birt:
4. febrúar 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Steinunn Harðardóttir - Með náttúrunni“, Náttúran.is: 4. febrúar 2014 URL: http://nature.is/d/2014/02/04/steinunn-hardardottir-til-lids-vid-natturuna/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 23. mars 2016

Skilaboð: