Innkaupaferð fjölskyldunnar í Nettó á Selfossi í gær endaði með því að ekkert var keypt. Ástæðan var að kjötborðið uppfyllti engan veginn okkar gæðakröfur. Sem meðvitaður neytandi leyfi ég mér að röfla yfir þessu.

Það er reyndar algengara en ekki að kjöt og kjúklingar sem hafa aðeins verið skornir niður og eða hakkaðir sé pakkað með ýmsum E-aukefnum, fylliefnum, salti, sykri, vatni o.fl. sem er að mínu mati afleit þróun. Skiljanlegt er að svokallaðar „unnar“ kjötvörur þurfi á hjálp að halda til að haldast saman og endast sem lengst, en kjöt sem kemur beint af skepnunni ætti ekki að þurfa á öllu þessu aukalega að halda.

Oftast hafa neytendur val í verslunum en þó ekki nógu oft. Að hafa val á hreinni vöu þ.e. 100% hreinu kjöt ætti að vera lágmarkskrafa.

En úrvalið í Nettó var s.s. eftirfarandi:

OKKAR
Ódýrar bringur

Innihald:
kjúklingabringur
vatn
salt
glúkósi
rotvarnarefni E262
þráavarnarefni E331
bragðefni, lyftiefni E500

Næringargildi í 100 gr.
Orka: 330 kj/80 kcal
Prótein: 10 g
Kolvetni: 1 g
Fita; 2 g
Natríum: 0,1 g

Íslensk framleiðsla fyrir Samkaup.

KJÖTSEL
Nautgripahakk
100% íslenskt nautgripakjöt
Kælivar 0-4oC. 8-12% fita

Innihald: Nautgripahakk
Rotvarnarefni E262
Þráavarnarefni E300/301/331
Steikið á pönnu í 5-10 mín

Næringargildi í 100 g: orka 702 kj, 168 kkal
Prótein 20 g. Kolvetni 0 g. Fita 10 g.

Framleitt fyrir Samkaup Reykjanesbæ.

Ég spyr mig hvort að nefndur framleiðandi haldi að við neytendur séum svo vitlausir að það skipti okkur engu máli hverju er blandað í annars óunna vöru eða hvort að þeir treysti á að við séum nógu grandvaralaus til að taka ekki eftir þessu, nú eða að við séum svona illa upplýst að við skiljum ekki að þetta sé ekki í lagi. Reyndar spyr ég mig einnig hvort að það komi netyendum ekki við „hvar“ varan er framleidd því að „framleitt fyrir“ Samkaup segir mér ekkert um það. Alveg eins gæti staðið „framleitt fyrir vitleysinga“.

Í E-efna tólinu hér t.h. á síðunni er hægt að fletta upp E-efnum og sjá hvort að um holl eða jafnvel skaðleg efni sé að ræða.

Birt:
7. apríl 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Eru neytendur vitlausir eða bara grandvaralausir?“, Náttúran.is: 7. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/07/eru-neytendur-vitlausir-eda-bara-grandvaralausir/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: