Í gær var haldin málstefna um Þingvelli, nánar tiltekið um hvort að „Blámi og tærleiki Þingvallavatns sé í hættu“. Sjá frétt. Fundurinn var haldinn í fundarsal Ferðafélags Íslands og varð húsfylli. Að málstofunni stóðu Náttúruverndarsamtök Suðurlands og  Suðvesturlands en heiðurinn af skipulagningunni á Björn Pálsson alræmdur náttúruverndarsinni, leiðsögumaður og fyrrverandi héraðsskjalavörður á Selfossi.

Góð og ítarleg erindi voru flutt á málstefnunni, í bland við listrænan flutning Guðrúnar Ásmundsdóttur með óbó-millispili Eydísar Franzdóttur. Hilmar J. Malmquist rakti sögu rannsókna á vatninu og lífríki þess frá byrjun síðustu aldar. Niðurstöður þeirra eru uggvænlegar því allt bendir til þess að aukin mengun frá bílaumferð, hnattræn hlýnun o.fl, umhverfisþættir séu að spilla vatninu.

Sigrún Helgadóttir hélt erindi um nauðsyn þess að umsjón þjóðgarða verði á hendi eins fagaðila þannig að samræming náist og pólitísk afskipti heyri sögunni til. Skynsemisrök Sigrúnar hljóta að verða heyrð, þó síðar verði en hún harmaði að ný Náttúruverndarlög hafi verið afgreidd án þess að þetta mikilvæga mál fengi nokkura meðferð.

Heiðursgesturinn Pétur M. Jónasson, vatnalíffræðingur og prófessor emirítus við Kaupmannhafnarháskóla, sá fræðimaður sem lengst hefur rannsakað vatnið og barist fyrir verndun þess, kom frá Kaupmannahöfn til að sitja málstefnuna og minna fólk á að afglöp manna ættu mestan þátt í eyðileggingu vatna og að ef að Þingvallavatni yrði spillt væri ekki aftur snúið. Pétri var afhent heiðursskjal Náttúruverndarsamtaka Suðurlands og Suðvesturlands og var hylltur vel fyrir lífsstarf sitt af fundargestum.

Náttúruverndarsamtökum Suðurlands og Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands skal þakkað fyrir framtakið.

Ljósmynd: Björn Pálsson afhendir Pétri M. Jónassyni heiðursskjalið, Ellert Grétarsson.

Birt:
4. apríl 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Pétur M. Jónasson heiðraður á málstofu um Þingvallavatn“, Náttúran.is: 4. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/04/petur-m-jonasson-heidradur-malstofu-um-thingvallav/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: