Orka - viðmið
Með orku er átt við tvennt, annars vegar hversu mikla orku viðkomandi vara þarf til daglegra nota og hins vegar hugsanlegs orkusparnaðar vörunnar.
Við val á raftækjum skiptir miklu hversu orkufrek þau eru. Flest heimilistæki eru orkumerkt evrópskum staðli á skalanum A til G. Orkumerkingin gefur til kynna hversu mikla orku tækið notar. A er lítil orkunotkun en G mikil orkunotkun. Orkunotkun vöru á líftíma hennar skiptir máli fyrir umhverfið og jafnvel ef horft er til kostnaðar. Ódýrari varan í innkaupum getur verið dýrari þegar upp er staðið, því ef varan er G-merkt notar hún mikla orku á notkunartíma.
Einnig þarf að vera hægt að taka tillit til hugsanlegs orkusparnaðar viðkomandi vöru. Ákveðnar vörur eru ekki knúnar orku en geta þrátt fyrir það verið orkusparandi. Gluggar eru dæmi um slíka vöru. Orkuný tni (einnig nefnt kólnunartala) húsa þar á meðal glugga er mæld í U-gildum, það er, orkutap fyrir hvern fermetra og hitamismunar inni og úti mælt í Kelvin (W/m2 K).
Til eru sérstök orkumerki eins og t.d. Energy Star og Evrópska orkumerkið. Merkin gefa til kynna hve orkufrekt tækið er. Þessi merki er yfirleitt að finna á tölvum og rafmagnstækjum ýmiss konar.
Grafík: Tákn sem notað er eingöngu hér á vefnum þegar fjallað er um orku almennt ©Náttúran.is.
Birt:
Tilvitnun:
Finnur Sveinsson „Orka - viðmið“, Náttúran.is: 22. október 2013 URL: http://nature.is/d/2007/05/08/orka-vimi/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 8. maí 2007
breytt: 14. júní 2014