Um páskana héldu íbúar og landeigendur fund um Blöndulínu 3 á Mælifellsá í Skagafirði. Fundurinn ályktaði eftirfarandi:

Fundur um Blöndulínu 3, haldinn á Mælifellsá í Skagafirði þann 30. mars 2013, hafnar alfarið lagningu 220kV loftlínu frá Blöndustöð til Akureyrar með tilheyrandi háspennumöstrum.

Almenningsþörf býr ekki að baki áætlunum um lagningu Blöndulínu 3, þrátt fyrir áróður Landsnets um hið gagnstæða.  Framkvæmdin, verði af henni, mun spilla náttúru Íslands og draga úr möguleikum til uppbyggingar sjálfbærrar matvælaframleiðslu og ferðamennsku.

Skattgreiðendur munu bera kostnað og áhættu vegna framkvæmdarinnar, sem þjónar eingöngu hagsmunum stóriðju og er fyrsta skrefið í hringtengingu stóriðjuvera, samkvæmt kerfisáætlun Landsnets. Með öllu er óásættanlegt að skattgreiðendur niðurgreiði enn frekar raforkuflutninga til stóriðjufyrirtækja, sem þegar njóta óeðlilegra skattfríðinda hér á landi.

Á Íslandi er nóg komið af óarðbærum framkvæmdum þar sem hagsmunum framtíðar er fórnað á altari stundarhagsmuna. Fundurinn fordæmir skammsýni þá er einkennir fyrirhugaðar framkvæmdir við Blöndulínu 3 og hvetur landsmenn alla til að kynna sér þá eyðileggingu sem kerfisáætlun Landsnets mun hafa í för með sér.

Sjá FB síðu um jarðstrengi hér.

Ljósmynd: Samsett mynd sem sýnir hvernig háspennulínur gætu haft áhrif á umhverfi Skagafjarðar, af FB síðunni um jarðstrengi.

Birt:
1. apríl 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Helga Rós Indriðadóttir „Fundur íbúa og landeiganda í Skagafirði hafnar alfarið lagningu Blöndulínu 3“, Náttúran.is: 1. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/01/fundur-ibua-og-landeiganda-i-skagafirdi-hafna-alfa/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: