Síðastliðið sumar kom upp mál sem ég tel að hafi valdið straumhvörfum í baráttunni gegn óheftri beit sauðfjár á viðkvæmum svæðum í þjóðareign. Svo vill til að svæðið sem um er fjallað ber einmitt nafnið Almenningar og er norður af Þórsmörk. Nánar tiltekið svæðið norðan Þröngár og upp að Fremri Emsturá. Almenningar voru illa farnir af ofbeit og tekin var ákvörðun um að friða þá 1990 fyrir beit og stóð sú friðun allt fram til seinasta sumars. Frestað hafði verið um eitt ár að senda þangað fé vegna Eyjafjallajökulsgossins, þannig að segja má að þær hamfarir hafi þó leitt til einhvers góðs fyrir náttúruna.

Í júli á liðnu sumri fréttist að tveir frístundabændur undan Eyjafjöllum hafi flutt þangað 29 ær með lömb í óþökk Landgræðslunnar og Skógræktar ríkisins. Enda gild rök fyrir andstöðu þeirra aðila. M.a. mat á beitarþoli afréttarins sem sýndi skýrt fram á að svæðið þyldi litla sem enga beit. Þetta létu frístundabændurnir sem vind um eyru þjóta og ruddust af eindæma frekju með fé sitt á aftréttinn. Sjálfur átti ég þarna leið um verslunarmannahelgina og sá ummerkin þar sem trjágróður hafði verið „snyrtur“ af miklum dugnaði svo hægt væri að fara með vélaherdeild bændanna í gegnum Hamraskóga nyrst í Þórsmörk. Ég horfði líka á og myndaði að auki fjárhóp sem reif í sig birkikjarr ofarlega í Ljósártungum. Þessir ágætu menn, sem vaða svona yfir landið í algjöru virðingarleysi og fyrirlitningu gagnvart því góða starfi sem unnið hefur verið til að vernda og græða upp viðkvæman gróður, verða nú að fara að endurskoða afstöðu sína.

Telja menn sem þessir að þeir séu að stuðla að bættum viðhorfum almennings og þá um leið neytenda gagnvart sinni framleiðslu og starfsgrein?
Í mínum huga er framkoma sem þessi stórkostlega ámælisverð gagnvart þessari annars ágætu stétt sem á í vök að verjast. Mig skortir skilning á viðbragðaleysi eða öllu heldur þeirri hvatningu sem forráðamenn bændasamtakanna sýna þeim í þessu máli. Fáar stéttir held ég að gætu liðið að einhverjir úr þeirra hópi færu um með jafn markaðsspillandi framkomu og þessir menn.
Höfum í huga að þessir sk. „bændur“ sem ráku fé á Almenninga eru ekki bændur, heldur frístundabændur sem eiga lítilla hagsmuna að gæta þó markaðir hrynji. Starfa áfram í sínum blikksmiðjum og við forritun þó alvöru bændur þurfi að taka skellinn af sjálfhverfni þeirra.

Skemmdarverk sem þetta er ekki aðeins gegn náttúrunni, heldur líka gagnvart viðkvæmum markaði íslenskar landbúnaðarvara sem greiddar eru niður um milljarða ár hvert. Sú grein á mikið undir velvilja almennings komið.
Þegar féð (eh. á bilinu 50-70 skepnur) var sótt um miðjan september af fjölmenni, stórum flota ökutækja og hrossa. Í kjölfar þess vöknuðu hjá mér spurningar um hagkvæmni í landbúnaði. Er það réttlætanlegt að slíkur leiðangur sé farinn til að sækja fé sem aðeins mun skila 30-40 lömbum í sláturhúsið?  Þetta er aðeins hluti kostnaðarins við þessa framleiðslu, en í tilfelli sem þessu rýkur kostnaðurinn upp úr öllu valdi. Sé allt talið efast ég ekki um að kostnaðurinn við að sækja féð sé langt yfir raunvirði dilkanna. Er réttlætanlegt að eyða styrkjafé sem kemur úr sjóðum almennings í „skemmtiferðir bænda“ sem mér virðist afréttarmenning sem þessi vera að miklu leiti. Í sumar voru það aðeins undanfararnir sem voru á svæðinu. 29 lambær en búið er að ákveða að heimila þar 130 ær og það í andstöðu við öll rök önnur en eyfellskra bænda í afneitun.

Ég segi fyrir mitt leiti að mér finnst lambakjötið bragðast verr eftir að hafa fylgst með þessu máli síðastliðið sumar. Já og hef meira að segja dregið enn frekar úr kaupum á þessari munaðarvöru. Með orðinu munaðarvöru á ég við að landníðsla eins og fjallað er hér um, er munaður nokkurra sjálfhverfra frístundabænda. Á að flytja kostnaðinn af óhagkvæmum búnaðarháttum þeirra yfir í vöruverðið. Mitt svar er, nei takk.

Ljósmynd: Fé á beit í birkikjarri í Almmeningum, ágúst 2012. ©Árni Tryggvason.

Sjá einnig grein í Bændablaðinu frá 21.0.2013: Ítölunefn heimilar væga beit á Almenningi. Í greininni kemur þó ekki fram að árið 2015 er áætlað að leyfa beit 130 áa með tvílembinga.

Birt:
27. mars 2013
Höfundur:
Árni Tryggvason
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Árni Tryggvason „Einkafé á Almenningum - Um skemmdarverk bænda gegn eigin starfi“, Náttúran.is: 27. mars 2013 URL: http://nature.is/d/2013/03/27/einkafe-almenningum-um-skemmdarverk-baenda-gegn-ei/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: