Tvö alþjóðleg stórfyrirtæki hér á landi, Alcoa og Norðurál, borga litla sem enga tekjuskatta hér á landi, þar sem þau skulda systurfélögum sínum erlendis hundruð milljarða króna. Fyrirkomulagið er alþekkt erlendis, en lög hér á landi gera þessa aðferð við að lækka skatta auðveldari.

Þetta kemur fram í Kastljósi kvöldsins 20.03.2013. Fyrirkomulagið er í grófum dráttum svona.

Alcoa og Norðurál eru alþjóðleg fyrirtæki með rekstur hér á landi, þar sem tekjur og hagnaður verða til. Eignarhaldið er hins vegar flókið, en fer í gegnum systurfélög í Luxembourg í tilviki Alcoa og Delaware í Bandaríkjunum í tilviki Norðuráls og þaðan í móðurfélögin. Fyrirtækin hér á landi eru fjármögnuð í gegnum þessi systurfyrirtæki, og skulda þeim hundruð milljarða króna, og borga hundruð milljóna í vaxtakostnað af þessum lánum. Sá kostnaður kemur til frádráttar tekjum og þar af leiðandi þeim sköttum sem lagðir eru á þessi fyrirtæki hér á landi.

Í umfjöllun Kastljóss í kvöld kemur til að mynda fram að Alcoa á Íslandi hafi ekki greitt krónu í tekjuskatt síðan 2003 og á þar að auki inneign á móti sköttum næstu ára. Álver Norðuráls á Grundartanga hefur verið starfrækt í sextán ár, en hefur greitt tekjuskatt fyrir þrjú rekstrarár. Þetta er þekkt erlendis, og þar hefur víða verið girt fyrir slíkt. Íslenskum stjórnvöldum hefur verið bent á að þessu þurfi að breyta, þar á meðal af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þær breytingar hafa enn ekki verið lagðar til.

Forstjóri Alcoa sendi fréttastofu í kvöld þá athugasemd að fyrirtækið hefði fyrirframgreitt tekjuskatt fyrir árin 2010 til 2012, samkvæmt samkomulagi við ríkisstjórn Íslands, vegna bágrar stöðu ríkissjóðs. Formaður fjárlaganefndar Alþingis, Björn Valur Gíslason, segir hins vegar ekki rétt að fyrirtækin, Alcoa og Norðurál, hafi greitt skatt, heldur hafi þau í raun veitt ríkissjóði lán á þessum tíma með því að fyrirframgreiða tekjuskatt. segir Björn Valur. Stóriðjufyrirtækin greiddu þannig árlega 1,2 milljarða í fyrirframgreiddan tekjuskatt. Björn Valur segir að þessir fjármunir hafi ekki verið færðir sem tekjur í ríkissjóð, heldur sem lán. Þegar fyrirtækin hefji greiðslur tekjuskatts, verði þær greiðslur jafnaðar út á móti skuldinni.

Ljósmynd: Alcoa Fjarðarál í byggingu, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
21. mars 2013
Höfundur:
Rúv
ásamt:
Ríkisútvarpið
Tilvitnun:
Rúv, Ríkisútvarpið „Borga litla sem enga tekjuskatta á Íslandi“, Náttúran.is: 21. mars 2013 URL: http://nature.is/d/2013/03/21/borga-litla-sem-enga-tekjuskatta-islandi/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: