Hjólreiðamenn verða að gæta sín sérstaklega þegar hjólað er í borgum þar sem er mikil umferðarmengun. Rannsóknir hafa sýnt að hjólreiðamaður í áreynslu andar dýpra en t.d. ökumaður bifreiðar, þannig að ef hjólreiðamaður verður fyrir mikilli útsetningu gegn mengandi efnum er hætta á því að þau berist auðveldlega ofan í lungu.

Svifryk er yfirleitt ekki mjög hættulegt nema það sé minna en PM 2,5. Það fína svifryk sem er undir PM 2,5 kemur yfirleitt beint frá útblæstri bifreiða, það fer beint ofan í lungu og kemur sér fyrir í lungnablöðrunum þar sem það leysist upp og efnin sem eru í svifrykinu fara þannig inn í blóðrás mannslíkamans.

Það er því útblásturinn frá bílunum sem skapar einna mesta hættu, þótt ýmsar tegundir svifryks kunni að vera í loftinu (gosaska, saltagnir, ryk frá uppblæstri o.s.frv.). Því stærra sem svifrykið er því auðveldara á mannslíkaminn með að losna við það.

En hvað getur þá hjólreiðamaðurinn gert. Jú sem betur fer minnkar svifryks- og umferðarmengun mjög hratt með fjarlægð frá götunni sjálfri. Það munar því um hvern metra sem maður getur hjólað lengra frá götunni.

Ef þú ert að hjóla á göngustíg eða gangstétt skaltu halda þig þeim meginn sem er fjærst götunni hverju sinni. Ef þú finnur fyrir sviða eða óþægindum í öndunarfærum skaltu setja eitthvað fyrir vitin (trefil, grisju).

Síðan er um að gera að hvetja fólk almennt til að hjóla í vinnuna, ganga eða nota almenningssamgöngur til þess að bílamengun í borginni minnki. Einnig verður að hafa hjólareiðamenn í ráðum við gerð göngustíga þannig að þeir séu lagðir sem fjærst umferðaræðunum. Í sameiningu getum við skapað betra borgarumhverfi.

Grafík: Hjól og skór, Signý Kolbeinsdóttir.

Birt:
20. maí 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Leiðbeiningar til hjólreiðamanna vegna umferðarmengunar“, Náttúran.is: 20. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2013/03/19/leidbeiningar-til-hjolreidamanna-vegna-umferdarmen/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2013
breytt: 6. júní 2014

Skilaboð: