Áskorun til alþingismanna vegna frumvarps til laga um náttúruvernd
Landvernd skorar á alþingismenn að ljúka umræðu um frumvarp til laga um náttúruvernd og kjósa um frumvarpið áður en þingi lýkur nú í vikunni.
Landvernd er í flestum atriðum sammála frumvarpinu og styður það í grundvallaratriðum. Frumvarpið felur í sér heildsteyptari og skýrari lagaumgjörð en við höfum áður haft um vernd íslenskrar náttúru. Samtökin fagna ýmsum nýmælum í lögunum og skerptum áherslum í sumum málaflokkum. Hér má nefna skýrari markmiðssetningu, kafla um meginreglur, aðlögun friðlýsingaflokka að alþjóðlegum viðmiðum, heimild til friðlýsingar heilla vatnasviða, viðbætur og breytingar á kafla um vernd jarðminja, vistkerfa, vistgerða og tegunda, kafla um framandi tegundir, akstur utan vega, vöktun náttúrunnar og bætt þvingunarúrræði stjórnvalda til að framfylgja lögunum.
Samtökin hafa jafnframt komið á framfæri ítarlegum athugasemdum sínum til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og hvetja alþingismenn til að kynna sér þær vel og taka tillit til þeirra.
Birt:
Tilvitnun:
Guðmundur Ingi Guðbrandsson „Áskorun til alþingismanna vegna frumvarps til laga um náttúruvernd“, Náttúran.is: 13. mars 2013 URL: http://nature.is/d/2013/03/13/askorun-til-althingismanna-vegna-frumvarps-til-lag/ [Skoðað:23. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.