Landvernd fer fram á að íslensk stjórnvöld sýni ábyrgð í umgengni við Mývatns- og Laxársvæðið og tryggi að framkvæmdir Landsvirkjunar við Bjarnarflagsvirkjun verði stöðvaðar þangað til óvissu um áhrif virkjunarinnar á lífríki svæðisins og heilsu fólks hefur verið eytt.

Fjölmiðlar hafa í dag birt upplýsingar um eyðileggingu lífríkis Lagarfljóts, en vísindamenn höfðu varað við slíkum áhrifum í mati á umhverfisáhrifum virkjunarinnar. Nú hafa vísindamenn varað við að Bjarnarflagsvirkjun kunni að hafa eyðileggjandi áhrif á lífríki Mývatns, m.a. með mengun og/eða kólnun grunnvatnsstrauma í vatnið. Auk þess hefur Umhverfisstofnun lýst því yfir að sérfræðingar hennar telji að endurmeta þurfi áhrif virkjunarinnar að hluta. Stjórn Landverndar undirstrikar nauðsyn þess að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir þegar ákvarðanir um stórframkvæmdir eru teknar. Þar skortir oft verulega á eins og Kárahnjúkavirkjun er skýrt dæmi um.

Landsvirkjun hefur ekki orðið við þeirri kröfu Landverndar að endurtaka a.m.k. hluta umhverfismats virkjunarinnar þrátt fyrir að það sé orðið 10 ára gamalt og mikil reynsla hafi safnast saman á rekstri og umhverfisáhrifum jarðvarmavirkjana á Íslandi frá því matið var unnið. Fyrirtækið hefur lýst því yfir að það hyggist dæla affallsvatni virkjunarinnar niður fyrir grunnvatnsstrauma til Mývatns, en hefur ekki svarað því hvernig það hyggist bregðast við vandamálum sem upp kunna að koma við slíka niðurdælingu, en slík vandamál þekkjast annarsstaðar frá á landinu. Þá hefur fyrirtækið ekki svarað því hversu mikillar kælingar er að vænta á grunnvatnsstraumi til Mývatns vegna jarðvarmavinnslunnar og áhrifa þess á lífríki vatnsins, sérlega á magn kísils sem berst í vatnið og er eitt undirstöðuefnið í lífríki þess. Þá hefur fyrirtækið ekki skýrt frá því með skýrum hætti hvernig það ætli að draga úr brennisteinsmengun á svæðinu, en þorpið í Reykjahlíð er einungis um 3-4km frá fyrirhuguðu virkjanasvæði.

Mývatns- og Laxársvæðið nýtur sérstakrar verndar samkvæmt lögum sökum einstaks lífríkis og fjölbreyttra jarðmyndana. Um er að ræða eina helstu náttúruperlu landsins, sem auk þess er gríðarlega mikilvæg auðlind í ferðaþjónustu á svæðinu og fyrir ímynd alls landsins. Þá er svæðið á s.k. Ramsarlista yfir alþjóðlega mikilvæg votlendis- og fuglasvæði, sem íslensk stjórnvöld bera ábyrgð á að varðveita samkvæmt alþjóðasamningum. Í september sl. sendu Landvernd og Fuglavernd Ramsarskrifstofunni bréf þar sem varað var við mögulegum áhrifum virkjunarinnar á Mývatns- og Laxársvæðið. Í kjölfarið sendi skrifstofan íslenskum stjórnvöldum erindi en því hefur enn ekki verið svarað.

Birt:
12. mars 2013
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Lærum af biturri reynslu við Lagarfljót“, Náttúran.is: 12. mars 2013 URL: http://nature.is/d/2013/03/12/laerum-af-biturri-reynslu-vid-lagarfljot/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: