Blað, skæri, stóll – Listasmiðjur fyrir börn
Laugardaginn 16. mars kl. 10.30-12.00 og kl. 14.00-15.30 verða haldnar tvær listasmiðjur fyrir börn á aldrinum 6-12 ára og foreldra þeirra í Norræna húsinu, Sturlugötu 5. Smiðjurnar eru haldnar í tengslum við Hönnunarmars 2013 og átakið Pappír er ekki rusl sem Reykjavíkurborg stendur fyrir til að kynna bláu tunnuna sem ætluð er fyrir endurvinnanlegan pappír sem SORPA sér um að koma í endurvinnslu.
Mjólkurfernur, eggjabakkar, pítsukassar og annar pappír geta átt sér allskyns framhaldslíf eftir að þau hafa lokið upprunalegu hlutverki sínu. Í listasmiðjunum tveimur verður unnið með þann fjölbreytta pappír sem fer í bláu tunnurnar og munu börnin búa til stóla undir handleiðslu þeirra Ínu Salóme Hallgrímsdóttur og Brynhildar Þorgeirsdóttur, myndlistarmanna og kennara við Myndlistaskólann í Reykjavík.
Þátttaka í smiðjunum er ókeypis en Reykjavíkurborg og SORPA kostar verkefnið. Sorpa leggur til efniviðinn og færir þátttakendum endurvinnslupoka að gjöf. Þátttakendur verða að skrá sig á nh@nordice.is eða með því að hringja á skrifstofu Norræna hússins í s.551-7090, fyrir föstudaginn 15. mars, en hámarksfjöldi þátttakanda eru 20 börn í hvorri smiðju.
Ljósmynd: Mjólkurfernur, Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
SORPA bs „Blað, skæri, stóll – Listasmiðjur fyrir börn“, Náttúran.is: 12. mars 2013 URL: http://nature.is/d/2013/03/12/blad-skaeri-stoll-listasmidjur-fyrir-born/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.