Bandaríski arkitektinn, hönnuðurinn og annar höfunda bókarinnar Cradle to Cradle: Remaking the Way We Make Things, William McDonough heldur fyrirlestur á Grænum dögum í Háskóla Íslands. McDonough, sem hefur hlotið fjölda verðlauna á sinu sviði, hefur meðal annars starfað með Nike, Ford og NASA við verkefni þar sem hugmyndafræði hans, er beitt til að hjálpa fyrirtækjunum að draga úr og eyða alfarið neikvæðum umhverfisáhrifum í starfsemi þeirra.

McDonough er 61 árs, fæddur í Tokyo en útskrifaðist árið 1976 frá Yale. Megináhersla starfa hans hefur verið á hönnun sjálfbærra bygginga og breytinga á verkferlum í iðnaði í átt að sjálfbærni. Hann hefur hlotið mikinn fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir hugmyndir sínar og verk en þar á meðal eru verðlaun Bandaríkjaforseta á sviði sjálfbærar þróunar.

McDonough hefur í gegnum árin starfað með fyrirtækjum, stofnunum og ríkjum við verkefni þar sem hugmyndafræði hans, er beitt til að hjálpa aðilum að draga úr og eyða alfarið neikvæðum umhverfisáhrifum af völdum starfsemi þeirra. Meðal þeirra sem  McDonough hefur starfað með eru Nike, Ford og NASA auk þess sem hann hefur aðstoðað kínversk stjórnvöld við hönnun á sjálfbærum borgum í Kína.

Hugmyndafræði McDonough hefur verið lýst sem næstu iðnbyltingu, þar sem áhersla er lögð á lágmarks og jafnvel engin neikvæð áhrif á umhverfi og náttúru. Þannig má lýsa frá vöggu til vöggu (e. Cradle to Cradle) hugsun McDonough að öll hráefni sem notuð eru til framleiðslu, hönnun afurða og samsetning þeirra sé þannig úr garði gerð að afurðin sé að loknum líftíma sínum endurnýtanleg að fullu og ekkert af henni endi sem úrgangur til að mynda í formi landfyllingar.

Fyrirlestur McDonough verður fluttur í gegnum fjarfundabúnað þriðjudaginn 19. mars klukkan 17:00 í stofu 105 á Háskólatorgi.

Á Grænu dögunum verða ásamt fyrirlestri McDonough, hádegisfyrirlestrar, kvikmyndasýningar, skiptifatamarkaður, tónlistaratriði, og margt fleira. Dagarnir eru frá 18.-22. mars næstkomandi og verða formlega settir á Háskólatorgi mánudaginn 18. mars klukkan 12:00.

Hægt verður að fylgjast með dagskrá Grænna daga Háskóla Íslands á fésbókarsíðu daganna.

Það er Gaia, félag meistaranema í Umhverfis- og auðlindafræði sem stendur að Grænum dögum í Háskóla Íslands en þeir hafa verið haldnir árlega síðan 2008. Meginþema daganna í ár er sköpun og sjálfbærni í hönnun og listum. Gaia hefur unnið hörðum höndum að undirbúningi daganna síðustu mánuði og því er það mikil viðurkenning fyrir Grænu dagana að William McDonough hefur samþykkt að flytja erindi á þeim.

Þú getur fylgst með dagskrá Grænna daga á Facebook.

Ljósmynd: William McDonough.

Birt:
11. mars 2013
Tilvitnun:
Davíð Fjölnir Ármannsson „William McDonough á Grænum dögum í Háskóla Íslands“, Náttúran.is: 11. mars 2013 URL: http://nature.is/d/2013/03/11/william-mcdonough-graenum-dogum-i-haskola-islands/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 12. mars 2013

Skilaboð: