Prentsmiðjan Litróf hefur fengið vottun Svansins til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum. Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra afhenti Konráði Inga Jónssyni Svansleyfið í húsnæði fyrirtækisins seinasta föstudag.

Svansmerktar prentsmiðjur eru nú orðnar tíu talsins og því ætti enginn að lenda í vandræðum með að verða sér úti um Svansmerkt prentverk.

Litróf Prentmyndagerð var stofnuð árið 1943 af Eymundi Magnússyni og á því stórafmæli á árinu. Fyrirtækið hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár og er nú með fullkominn búnað til prentunar og frágangs hinna ýmsu prentgripa.

Prentsmiðjan Litróf var eitt fyrsta fyrirtækið til að afla sér upplýsinga um Svaninn og hefur um langan tíma fylgst vel með umhverfismálum.

Kröfur Svansins fyrir prentsmiðjur eru mjög strangar, sérstaklega hvað varðar efnanotkun, sem er þýðingarmesti umhverfisþátturinn í rekstri prentsmiðja en auk þess er:

  • Lögð áhersla á notkun umhverfismerkts eða endurunnins pappírs við prentunina.
  • Hlutfall úrgangspappírs við framleiðsluna lágmarkaður.
  • Flokkun úrgangs ásamt réttri meðhöndlun hættulegra efna er tryggð.
  • Hvatt til notkunar endurnýjanlegra orkugjafa og lágmörkunar á orkunotkun við framleiðsluna.
  • Hvatt til þess að valdar séu umhverfismerktar vörur og þjónusta í innkaupum.
  • Gerð er krafa um reglulega þjálfun og fræðslu starfsmanna ásamt ferlum til að stýra umhverfisstarfi.
  • Tryggt er að fyrirtækið uppfylli öll lög og reglugerðir sem eiga við starfsemina.

Sjá þau fyrirtæki sem hafa Svansvottun hér á landi á Grænum síðum.

Sjá þá vöruflokka sem eru í boði af Svansvottuðum vörum hér á landi undir „Vörur/Vottað Svanurinn“ en í hverjum flokki finnur þú hvaða fyrirtæki flytja inn/dreifa viðkomandi vöruflokki og hvað vörurnar heita. Sé varan til nákvæmlega skráð til sölu eða kynningar er hana að finna í Svansbúðinni hér á Náttúrumarkaði. Samsvarandi flokkur er fyrir þjónustuflokkana undir „Þjónusta/Vottað Svanurinn“ hér á Grænum síðum.

Ljósmynd: Svandís Svavarsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra afhendir Konráði Inga Jónssyni framkvæmdastjóra Litrófs Svansleyfið. Umhverfisstofnun.

Birt:
March 7, 2013
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun, Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Litróf fær Svansvottun“, Náttúran.is: March 7, 2013 URL: http://nature.is/d/2013/03/06/litrof-faer-svansvottun/ [Skoðað:July 15, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 6, 2013
breytt: March 7, 2013

Messages: