Um langan aldur ferðuðust menn um landið í fullkominni sátt hver við aðra og umhverfið. Enda voru möguleikarnir til ferðalaga fábreyttir og fáir lögðu leið sína í auðnirnar. Hálendið var næstum lokaður heimur þeirra fáu sem áttu kost á að fara þangað.

Annað hvort fóru menn um ríðandi eða fótgangandi og aðrir möguleikar voru ekki í boði fyrr en langt var liðið fram á miðja seinustu öld þegar fáar bílfærar slóðir urðu til og hópurinn sem þar fór um taldi ekki marga.

Af þessum ástæðum voru árekstrar fáir og það var mönnum fagnaðarefni þessi fái skipti þeir sáu aðra á ferð og skipti þá litlu máli hver ferðamáti hinna var. Helstu áhyggjurnar fólust kannski í að fjárrekstsrar og hrossahópar gætu blandast. Að öðru leiti var ekki hætt við nokkrum ágreiningi.

Í grein sem ég birti hér nýlega fjallaði og nefndist „Ferðafrelsi og ferðavirðing" fjallaði ég um þá þróun sem orðið hefur í ferðamennsku hér á seinustu áratugum í kjölfar alls þess vaxandi fjölda fólks sem fer um landið. Jafnt í byggð sem óbyggðum, þó helst séu óbyggðir og miðhálendið sem mér er hugleikin í þessu samhengi. Þar er sá hluti landsins eða öllu heldur heimur sem var ósnortinn af mönnum langt fram á seinustu öld.

Lengst af ríkti friður á milli allra sem um landið fóru, burtséð frá hvaða ferðamáta þeir notuðu. Fáir voru á ferð og hávaði og ummerki eftir einn hópinn voru ekki líkleg til að ónáða aðra sem fóru um með öðrum aðferðum. Slíkt á einnig við að mestu í dag en þó með örlitlum breytingum eða kannski réttara sagt þróun sem við verðum að taka vaxandi tillit til. Gagnkvæm tillitssemi og breytt viðhorf munu fara vaxandi á næstu árum og áratugum. Þar verð að eiga sér stað breytinga  og ekki þarf nokkur maður að efast um að þær breytingar muni vekja gremju sumra.

Ég vil taka skýrt fram áður en lengra er haldið að lang stærstur hluti landsins á að vera flestum þeim ferðamátum sem við þekkjum í dag opinn á sama hátt og verið hefur. En þörfina fyrir að marka af viss svæði þar sem einn hópur getur stundað sína útiveru eða íþrótt óáreittur frá öðrum verðum við að fjölga, virða betur og draga þar skarpari línur. Nú eru til umfjöllunar á Alþingi ný Náttúruverndarlög sem vakið hafa upp reiðilöldu og umræðu í hópum þeirra sem stunda sk. mótorsport. Þar fara fremstir jeppamenn en af öðrum úr þeim hópi má nefna vélsleða-, fjórhjóla- og mótorhjólamenn.

Allt saman hópar sem eiga að hafa eðlilegan aðgang að landinu sem hentar þeirra útiveru og jafnvel þarf að huga að því að þeir hafi aðgang að svæðum sem þeir geta stundað sín áhugamál óáreittir fyrir öðrum hópum. Slík svæði eru nú þegar til, en þeim mætti að ósekju fjölga frekar.

Engu að síður eru vissir hópar útivistarfólks viðkvæmari fyrir truflun annarra. Hóparnir sem „trufla" líta oft ekki á sína umferð sem truflun. Jeppamaður sem ekki sá nauðsyn þess að leiðinni inn að Öskjuvatni frá Vikraborgum, hélt eitt sinn langa tölu yfir mér yfir heimsku leiðsgumannsins sem kærði hann fyrir athæfið. Slík dæmi eru ótal mörg.

Eitt af þeim atriðum sem hvað helst er deilt um varðandi ný náttúruverndarlög, eru einmitt þau ákvæði sem varða hömlur á einn ferðamáta umfram aðra á vissum svæðum. Vissulega er umræðan erfið og upphrópanir eins og „skert ferðafrelsi" heyrast. En því miður er löngu orðið tímabært að við tökum þessi mál til endurskoðunar. Vissum svæðum þarf að loka fyrir akandi umferð, jafnvel þó svo að akstur hafi verið heimill þar áður. Enda eru fordæmin ótal mörg og ég fullyrði að allir séu sáttir við þær lokanir í dag þó eitthvað hafi verið um þær deilt á sínum tíma. Þar dettur mér t.d. í hug lokun Almannagjár fyrir akstri (hver myndi krefjast þess að fá að aka þar í dag?). Lokun leiðar í Þjófadali, frá Kaldárseli að Helgafelli, frá Vikraborgum að Öskjuvatni, leiðin um Skófluklif að Strútslaug og síðast en ekki síst lokun Hvannadalshnúks og Öræfajökuls. Hér eru aðeins örfáar leiðir taldar af ótalmörgum sem lokað hefur verið. Sumum þeirra vegna harkalegs yfirgangs akandi umferðar eins og gerðist á Hvannadalshnúk um hvítasunnuna 2002.  Í námunda við skíðasvæði hefur yfirgangur sleðamanna t.d. verið til mikils ama og þeir ítrekað spillt aðstöðu til þeirrar íþróttar í sjáfhverfni sinni og jafnvel stefnt fólki þar í stórhættu með glæfraakstri. Þetta gerist á meðan allt um kring eru endalausar víðáttur til að aka um.

Því miður hefur það svo gerst á seinustu árum að þeir hópar sem notið hafa óhefts akandi aðgangs að náttúru landsins og upplifa það sem skerðingu á þeirra ferðafrelsi að svæðum sé lokað og stilli þá öðrum útivistarhópum upp sem einhverjum „óvinum" og hafa viðhaft stór orð í þeirra garð. Hér er komin upp slæm orðræða sem þarf að leiðrétta og snúa  aftur til betri vegar. Þó ég vilji upplifa kyrrð á vissum svæðum er það ekki af illgirni í garð vélamanna. Þó ég sé sjálfur vel akandi á ágætum jeppa hvarflar ekki að mér að aka um viss svæði. Á sama hátt og ekki hvarflar að mér að krefjast réttar til að fara fótgangandi eða á skíðum um svæði sem eru frátekin fyrir mótorsport. Gagnkvæm virðing þarf nefnilega að ríkja.

Þrátt fyrir vissar lokanir eru þetta aðeins örfá prósent alls þess landflæmis sem við höfum til að njóta útiveru á sem eru lokuð akandi umferð. En temji menn sér ekki aukna kurteisi, tillitssemi og ferðavirðingu, má gera ráð fyrir að slíkum svæðum fari fjölgandi í framtíðinni. Það er þróun sem ég bið ekki um.

Mynd:  Frelsis notið við Álftavatn á Syðra Fjallabaki.

Birt:
5. mars 2013
Höfundur:
Árni Tryggvason
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Árni Tryggvason „Óvinavæðing í útiveru“, Náttúran.is: 5. mars 2013 URL: http://nature.is/d/2013/03/05/ovinavaeding-i-uiveru/ [Skoðað:16. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: