Fjölskylda sambýliskonu minnar á yndislegt afdrep á fallegum stað í dæmigerðu sumarhúsahverfi fyrir austan fjall. Góður staður til að njóta þess að slaka á og auk þess er örstutt að skreppa þangað úr bænum. Þarna er fjöldi bústaða, misjafnlega mikið notaðir sem eru þó sami sælustaðurinn fyrir eigendur þeirra.

Algengastir eru þessir „venjulegu“ bústaðir eins og maður kallar þá og þarfnast ekki frekari skýringa. Á seinustu árum hafa svo risið sannkallaðar hallir. Sumar hverjar þættu vegleg einbýlishús í borginni og eru eflaust nýttar meir en þessir venjulegu sextíu fermetra bústaðir sem fluttir voru á staðinn á vörubílspalli. Hverfi sem þessi eru orðin að borg í sveitinni. Ég fjallaði um í pistli hér á dögunum hvað það er á vissan hátt óumhverfisvænt að „hverfa til náttúrunnar“, eins falleg og hugsunin er. Þar sem viss fyrring á sér stað þegar fólk kemur sér fyrir á þennan hátt og að auki hefur stór hluti þeirra sem þarna hafa hreiðrað um sig í heilsárshúsm ekki sleppt takinu á húsum sínum í borginni.

Það rann upp fyrir mér í síðastliðið sumar þegar ég var beðinn um að fara með nokkra sorppoka fulla af grasi og garðaúrgangi í sorpstöðina sem er þar í sömu sveit en þó töluvert frá. Hér var ég sem sagt í sumarbústað sem á að heita úti í náttúrunni og var beðinn um að flytja náttúrlegt „sorp“ í sorpgám um 8 km í burtu. Halló!!

Á þessari stund fór ég að hugleiða hvað ég sjálfur og aðrir sumarhúsabúar hafi verið að hugsa í gegnum tíðina þegar slíkur úrgangur er fluttur langar leiðir í plastumbúðum til þess eins að verða urðaður.

Hér þarfnaðist ég nýrrar hugsunar eða viðhorfs. Safnkassi væri lausnin. Sá fyrir mér að koma fyrir snyrtilegum kassa í lítilli laut í rjóðri til hliðar við bústaðinn.

Í næstu ferð austur hóf ég verkið. Yndislegur sumardagur eins og þeir voru svo margir í fyrra var fyrsti verkdagur. Þarna stóð ég og horfði ofan í lautina sem væri framtíðarstaðsetning kassans. Til að gera slétt undirlag fyrir kassann áætlaði ég að þetta yrðu um átta hjólbörufarmar af rauðamöl sem nóg var til af í stórum haug utan við lóðina. Fyrsta hlassið var eins og fyrsta krækiberið í stórri fötu. Ferðirnar voru orðnar átta og rétt botnfylli. Þær enduðu í vel yfir fjörtíu og þá var þetta orðið eins og ég vildi. Sveittur dagur í þrjóskukasti við að ljúka þessu verki leið hratt. Enda sá mikið á malarhaugnum sem ég byrjaði að moka úr, þegar lautin var loks orðin sléttfull.

Þá var áskorun næsta dags að hefja smíði kassans. Leitaði í því efni sem til var og fann góða bjálka fyrir grindina. Puðaði með handsög (daginn eftir fannst hjólsög í geymslunni) við að sníða til réttar lengdir og tengdi allt saman með voldugum vinklum og sverum nöglum. Ætlaði fyrst að skrúfa en borvélin bræddi úr sér. Grindinni síðan dröslað í malarfylltu lautina og þar er hún enn ókláruð. Umkomulaus stendur hún og bíður þess að verða klædd að utan, hellulögð í botninn og fá á sig lok. Nýjar hugmyndir um útfærslu fæðast í hvert skipti sem ég lít „sveinsstykkið“ mitt í trésmíði augum. Verkinu var sem sagt ekki lokið helgina eftir eins og til stóð í upphafi og er í sama horfi nú sjö mánuðum seinna. Þá hef ég enn tvo mánuði til að ljúka smíðinni áður en eðlilegum meðgöngutíma er lokið.

Ætlunin er að safnkassinn verði kominn í fulla notkun á komandi sumri. Þaðan í frá förum við ekki með nýslegið gras langar leiðir. Lífrænt heimilssorp annað enn kjöt, bein og fiskur fara í kassann og að tveim árum liðnum uppskerum við (merkilegt að kalla rotnun uppskeru) þessa fínu moltu sem eflaust finnast not fyrir á svæði þar sem hraun og mosi eru ráðandi.

Ég vona að sem flestir sumarhúsaeigendur finni hjá sér sömu þörf og láti þann úrgang hverfa aftur til náttúrunnar sem þar á heima í stað þess að urða í plasti.

Það er jafnvel íhugunarefni hvort ekki fari að verða tímabært að setja einhverjar kvaðir á um slíkt við sumarhús? Ég man þegar það þótti sjálfsagt að setja graspoka úr garðinum beint í ruslið. Í dag myndi engin óvitlaus maður gera slíkt. Allavega er þetta eitt af þeim málum sem við verðum að skoða vel í framtíðinni. Munum að hvert lítið skref sem við stígum í átt að betra umhverfi skiptir máli. Verðum þannig öðrum hvatning og börnum okkar fyrirmynd.

„Höfundurinn, Árni Tryggvason, er einn þeirra sem  eru að vakna í umhverfismálum“.

Ljósmynd: Svona lítur safnkassinn út í dag og bíður eftir verklokum, Árni Tryggvason.

Birt:
28. febrúar 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Safnað í sælureitnum í sveitinni“, Náttúran.is: 28. febrúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/02/28/safnad-i-saelureitnum-i-sveitinni/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 1. mars 2013

Skilaboð: