Leikvellir eru af ýmsum stærðum og gerðum. Þeir eru staðsettir á skólalóðum og í hverfum og jafnvel í heimagörðum.

Hér áður fyrr voru „gæsluvellir“ í hverfum Reykjavíkurborgar þar sem hægt var að koma með börnin til að leika úti í nokkra klukkutíma á dag undir eftirliti gæslufólks. Nú eru slíkir vellir ekki lengur í boði nema án gæslu enda ganga flest börn í leikskóla frá unga aldri þar sem að þau geta leikið sér úti hluta dags að minnsta kosti. Í grunnskólum er jafnan gert ráð fyrir nægu plássi til hlaupa og boltaleikja og oftast eru þar líka leiktæki af einhverjum toga. 

Börn sem leika sér úti eru að jafnaði hraustari en þau sem hanga mikið inni við. Hreint loft og átök við náttúruleg efni er uppbyggjandi fyrir alla, jafnt börn sem fullorðna. Ef aðstaða er til að koma upp sandkassa heimavið fyrir yngstu börnin er það þess virði því sandurinn er eins og leir fyrir hugmyndaflug barnsins. Úr sandi má allt gera og ímyndunaraflið fær algerlega lausan tauminn. Það þarf ekki meira en svalir til að koma fyrir litlum sandkassa.

Ef garðskiki er fyrir hendi er róla, kofi eða rennibraut góð viðbót því börn una sér hvergi betur en þar sem þau hafa öryggi og frelsi til að skapa sér sinn eigin heim og hreyfa sig. Mikilvægt er þó að leiktækin fylgi þroska barnsins sem best og öryggi sé alltaf sett á oddinn. Leiktæki úr þykku plasti geta ekki talist umhverfisvæn og brotna seint eða aldrei niður. Viðurinn stendur aftur á móti alltaf fyrir sínu og er auk þess endurvinnanlegt efni. Þegar sandkassinn eða kofinn hafa þjónað tilgangi sínum má alltaf gera eitthvað annað úr honum.

Þú sérð íþróttasvæði og leiksvæði í náttúrunni undir „Náttúran / Útivera / Íþróttasvæði/Leiksvæði í náttúrunni“ á Græna kortinu á Náttúran.is.

Sjá Græna kortið.

 

Birt:
26. febrúar 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Leikvöllur“, Náttúran.is: 26. febrúar 2013 URL: http://nature.is/d/2007/06/26/leikvollur/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 26. júní 2007
breytt: 13. júní 2014

Skilaboð: