Mötuneyti Landsbankans fær Svansvottun
Mötuneyti Landsbankans í Hafnarstræti hefur fengið vottun Svansins fyrir veitingarekstur og er því eina umhverfisvottaða mötuneyti landsins. Landsbankinn hefur á undanförnum árum lagt ríkari áherslu á umhverfismál og er það í samræmi við stefnu bankans um samfélagslega ábyrgð. Bankinn hefur til að mynda fest kaup á umhverfisvænum bílum og leggur mikið upp úr góðum samskiptum við birgja sína um vistvænar vörur. Eitt skref í þessari vegferð er Svansvottun mötuneytis starfsmanna. Með því dregur bankinn úr umhverfisáhrifum sinnar innri starfsemi og sýnir um leið öðrum fyrirtækjum gott fordæmi. Í mötuneyti Landsbankans er nú fylgst vel með orkunotkun og rík áhersla er lögð á að bjóða upp á lífrænt ræktuð matvæli. Þá er einnota borðbúnaður og ílát ekki notuð lengur og flokkun á sorpi hefur stóraukist.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhenti bankastjóra Landsbankans, Steinþóri Pálssyni, vottun norræna umhverfismerksisins Svansins í útibúi bankans í Austurstræti að viðstöddu fjölmenni. Ráðherra óskaði bankanum til hamingju með vottun mötuneytisins og gladdist með starfsmönnum yfir þessum áfanga. Mötuneyti Landsbankans hlýtur Svansleyfi númer 24 og bætist þar með í ört stækkandi hóp Svansleyfishafa á Íslandi.
Svansmerking fyrir veitingarekstur
- Kröfur Svansins fyrir veitingarekstur eru mjög strangar og fjölbreyttar þar sem þær ná til flestra þátta starfseminnar:
- Lögð er áhersla á ábyrg innkaup og hvatt er til þess að valdar séu umhverfisvottaðar vörur þar sem það býðst
- Uppfylla þarf strangar kröfur um notkun ræstiefna
- Fylgjast náið með orku- og vatnsnotkun
- Flokka þarf úrgang í að minnsta kosti fjóra flokka
- Ákveðið hlutfall matvæla skal vera lífrænt ræktað og hvatt er til noktunar á matvælum sem eru framleidd í nær umhverfi
- Gerð er krafa um reglulega þjálfun og fræðslu starfsmanna ásamt virkri umhverfisstýringu
- Tryggt er að fyrirtækið uppfylli öll lög og reglugerðir sem eiga við starfsemina
Norræna umhverfismerkið Svanurinn.
Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og skilyrðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo að komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum. Alls er hægt að votta um 70 mismunandi vöru- og þjónustuflokka.
Sjá þau fyrirtæki sem hafa Svansvottun hér á landi á Grænum síðum.
Sjá þá vöruflokka sem eru í boði af Svansvottuðum vörum hér á landi undir „Vörur/Vottað Svanurinn“ en í hverjum flokki finnur þú hvaða fyrirtæki flytja inn/dreifa viðkomandi vöruflokki og hvað vörurnar heita. Sé varan til nákvæmlega skráð til sölu eða kynningar er hana að finna í Svansbúðinni hér á Náttúrumarkaði. Samsvarandi flokkur er fyrir þjónustuflokkana undir „Þjónusta/Vottað Svanurinn“ hér á Grænum síðum.
Ljósmynd: Frá afhendingu Svansvottunarinnar til mötuneytis Landsbankans. Svandís Svavarsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra lengst til vinstri á myndinni.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Mötuneyti Landsbankans fær Svansvottun“, Náttúran.is: 22. febrúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/02/22/motuneyti-landsbankans-faer-svansvottun/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.