Umhverfisvernd og ég
Nú þegar sum okkar eru loks að vakna upp af Þyrnirósarsvefni varðandi umhverfið og mikilvægi náttúruverndar, verða til ótal spurningar í mínum einfalda huga. Já, ég ætla að nota orðið einfaldur, því einfeldni og sjálfhverfni er okkur svo ríkjandi þegar kemur að þessum málum.
Við erum loks að verða meðvituð um að auðlindir jarðarinnar eru ekki óþrjótandi. Allt þrýtur að lokum en fyrir svo grátlega stuttu síðan töldum við að nóg væri til af öllu til eilífðar. Fyrstu umræður um að olíu þryti að mestu innan nokkurra áratuga var tekið með hæðni. Upplýsingum um þverrandi regnskóga var tekið af vantrú og vitneskju um forgengileik lofthjúpsins var tekið með afneitun. Það dapurlegasta er að enn lifa margir í þessum ranghugmyndum, þó svo að staðreyndirnar blasi við okkur.
Afneitun er orð sem er kannski ráðandi í þessari umræðu? Ég tel að hver og einn lifi á vissan hátt í afneitun. Við getum þóst vera á allan hátt til fyrirmyndar en lifað samt í einhverri kjánlegri mótsögn við önnur viðhorf okkar. Umhverfisvæn á einu sviði en til að það sé mögulegt gerumst við umhverfisníðingar á öðru sviði og því er jafnvægi okkar sem einstaklinga gagnvart umhverfinu það sama og var fyrir nema þá að við tökum lífshætti okkar algjörlega til endurskoðunar og veita þá engar undanþágur í nafni eigin þæginda.
Hver þekkir ekki drauminn um að flytja úr þéttbýlinu? Flytja í sveitina, út fyrir borgarmörkin og rækta þar grænmeti og jafnvel að eiga nokkar skepnur að auki. Falleg hugmynd en hversu umhverfisvæn er hún? Akstur lengist, ekki nema viðkomandi ætli sér á að lifa að mestu í einangrun og sjálfsþurftabúskap. Oft þarf að ryðja ósraskað land til að byggja „umhverfisvæna heimilið“ og leggja langan veg og heildarmynd náttúrunnar er umbylt til þess eins að uppfylla draumin um að lifa í sátt við náttúna. Sér enginn mótsögnina í þessu? Slíkri búsetu fylgir svo stærri bíll og þá að mestum líkindum nokkuð voldugur pallbíll svo hægt sé að komast á staðinn í misjafnri færð og flytja nauðsynjarnar í sveitarómantíkina. Kannski að þessi sama fjölskylda sem kom sér fyrir í sveitinni hafi flutt úr borg þar sem auðvelt var að komast af án bíls? Hver veit? Búa í sveitinni með tvo bíla eða fleiri (þau eiga nefnilega tvo unglinga sem voru ekki sáttir með flutningana) og það er gott að eiga eins og einn traktor til að efla sveitarómantíkina.
Erum við að bjarga heiminum með að flýja í sveitina? Hugsanlega, en þá líklegast aðeins okkar litla eigin hugarheimi. Vellíðanin sem fylgir því að flytja nær náttúrunni er allt annað mál sem við skulum ekki rugla saman við umhverfisvernd.
Nú man ég ekki hvar ég las það, en fyrir einhverjum árum sá ég grein sem fjallaði um þetta jafnvægi á milli umhverfisáhrifa þéttbýlis og dreifbýlis. Vel skipulögð borg (sem ekki finnst enn á Íslandi) er hugsanlega umhverfisvænasti lífsmátinn miðað við þarfir okkar í dag. Samgöngur verða styttri og þar af leiðandi minni orkunotkun pr. íbúa, aðföng, lagnir, upphitun, sorp- og skolpförgun verða markvissari, þjónusta og stjórnsýsla samþjappaðri og svona mætti lengi áfram telja. Í stuttu máli, þá njóta bæði fólk og náttúra nábýlisins í vel skipulögðu þéttbýli og fyrir vikið þarf að brjóta minna af óspilltu landi undir byggð eða þá að meiri rými er áfram undir landbúnað sem annars færi undir strjála byggð og umferðarmannvirki.
Sjálfur þykist ég vera einn af þeim sem eru að vakna. Kannski tilneyddur í kjölfar kreppunnar. Barst mikið á fyrir nokkrum árum en gatatöngin hefur því miður óspart verið notuð til að bæta götum á sultarólina mína og ég þrauka enn. Á slíkum tímum er auðvelt að segjast vera umhverfisvænn (af því að ég hef ekki ráð á öðru). Aka minna (þá þarf ekki að kaupa bensín), nýta matinn betur og spara við sig í að bæta heimilið. Einu sófasetti, eldhúsinnréttingu og flatskjá minna fer í Sorpu af mínum völdum þetta árið.
Væri viðmót mitt annað ef fjárhagurinn væri betri? Eflaust en sparnaður seinustu ára hefur þó kannski kennt manni að hófsemd er best og verður að vana þó hagurinn vænkist. Þurfum við ekki öll að fara að hugsa meira í þessum anda?
Eflaust hafa mörg okkar komið til hinnar heillandi borgar Barcelona. Sú borg þekur jafn mikið landrými og Reykjavík sem íbúafjöldin er ekki nema tæplega 1/10 af því sem er í Barcelona. Já og vitið þið, að sjaldan hef ég séð jafn mikið af brosandi fólki og þar (þó þar finnist einnig eymd eins og annars staðar). Eru slíkar borgir á einhvern hátt okkur fyrirmynd? Eða er ekki skynsamlegast að fara einhvers staðar þar á milli? Ef við byggjum stórt og dreyft, höfum við engan rétt til að kvarta yfir umferðinni. Þurfa allir að búa í ofvöxnum húsum eða eigum við að verðleggja húsnði eftir hversu óumhverfisvænn slíkur búskapur er? Er jafnvel kominn tími á að við búum til ný viðmið varðandi húsnæðisverð með tilliti til umhverfisverndar. Ég treysti mér ekki til að svara því.
Ef allir telja sig geta byggt á þennan hátt, hvar endum við með byggðina? Allavega getum við ekki kvartað yfir löngum akstri til og frá vinnu, með börnin í skóla, í verslanir og þjónustu og þannig mætti lengi áfram telja.
Þrátt fyrir allar mótsagnirnar í umhvefismálum, þá megum við ekki gefast upp. Við ætlum að skoða hvert atriði og meta hvað við sjálf getum gert betur. Allt það litla sem við leggjum að mörkum er skref í rétta átt og allt telur. Við þurfum að taka hvert það skref sem er mögulegt og að vera börnunum okkar fyrirmynd því eins og við lærðum ofneysluna af fyrri kynslóðum, erum það við sem erum ábyrg fyrir að snúa þeirri þróun við.
Síðast en ekki síst, þá verðum við að hætta að hugsa um að þáttur okkar sjálfra í bættu umhverfi sé svo lítill að hann skipti ekki máli. Allt skiptir máli ef við ætlum að halda jörðinni byggilegri áfram. Það er nefnilega mjög langt í að við getum farið til annarra pláneta þegar þessi verður fullnýtt.
Með kærri kveðju.
Árni Tryggvason (býr í úthverfi og ekur um á tveggja tonna díeselhák)
Ljósmynd: Þrumuský á Skeiðum, Árni Tryggvason.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Tryggvason „Umhverfisvernd og ég“, Náttúran.is: 12. febrúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/02/12/umhverfisvernd-og-eg/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. febrúar 2013