„Fólk var mjög jákvætt gagnvart því að fá ábendingu um að flokka umbúðir úr pappír frá öðru rusli,“ sagði Íris Magnúsdóttir starfsmaður Reykjavíkurborgar sem brá sér í verslanir í Árbænum með límmiðavél og merkti vörur með miðanum: „Þessar umbúðir eru ekki rusl“.

Flestallar matvöruverslanir í Reykjavík hafa gefið starfsfólki Reykjavíkurborgar leyfi til að merkja með límmiðum t.d. morgunkornkassa, kexkassa, fernur, eggjabakka og aðrar vörur með umbúðir úr pappír. Þetta er þáttur í kynningarátaki borgarinnar á bláum tunnum og endurvinnslu eða að nú beri að flokka allan pappír frá. Vörur verða einnig merktar á næstunni í verslunum í Grafarvogi og Breiðholti.

„Við höfum flokkað fernur og dagblöð í mörg ár en áttuðum okkur ekki fyrr en nýlega að við gætum einnig flokkað karton með þeim í bláu tunnuna,“ sögðu hjón sem voru ánægð með nýju merkingarnar.

Sorphirða Reykjavíkur býður borgarbúum upp á tvær leiðir til að flokka pappír. Annars vegar með því að panta bláa tunnu heim við hús eða fara með efnið í grenndargáma í nágrenninu.

Íbúar í Grafarvogi, Árbæ og Norðlingaholti hættu alfarið að henda pappír í janúar og nú munu Breiðhyltingar gera það sama í febrúar.

Flokkun á pappír felur í sér möguleika á lægri sorphirðugjöldum. Heimili sem skiptir út grárri tunnu fyrir bláa sparar 12.100 kr. árlega. Blá tunna kostar 6.500 kr. á ári en grá undir blandaðan úrgang 18.600 kr.

Sjá nánar á pappirerekkirusl.is og einnig hér á Endurvinnslukortinu og Endurvinnslukorts-appinu sem má ná í ókeypis.

Ljósmyndir: Morgunkorn með „Þessar umbúðir eru ekki rusl“ í verslun Krónunnar á Höfða þ. 5. janúar sl. Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
7. febrúar 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Þessar umbúðir eru ekki rusl“, Náttúran.is: 7. febrúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/02/07/thessar-umbudir-eru-ekki-rusl/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: