Mig langar til að ræða hér mál sem er þarft að taka upp í framhaldi af skelfilegu slysi í Esjunni.
Því miður er þetta ekki fyrsta slysið af þessu tagi því ótal óhöpp hafa orðið á liðnum mánuðum sem enduðu þó betur.
Ekki vil ég alhæfa um einstök óhöpp, en engu að síður þarf hér breytt hugarfar.
Sem björgunarsveitamaður í 32 ár hef ég séð ýmislegt og tekið þátt í fjölda aðgerða sem hefðu með öllu verið óþarfar ef fólk hefði búið sig rétt fyrir ferðirnar.

Á liðnum árum hefur orðið mikil aukning í áhuga almennings á fjallagöngum og fjallaferðum. Því er ekki annað hægt en að fagna af heilum hug. Fyrir ekki svo mörgum árum voru það „sérvitringar og furðufuglar“ sem völdu sér áhugamál sem þessi. Fjöllin voru sem áður voru ógn, eru orðin aðdráttarafl í dag. En virðing okkar fyrir fjöllunum og hættum þeirra má á engan hátt minnka þrátt fyrir aukna kunnáttu og batnandi búnað.
Fjölmargir hópar harðduglegs fólks hafa sprottið upp og þyrpast á fjöll í alls kyns aðstæðum og veðri. Fólk sem jafnvel hefur ekki fundið sig í öðrum áhugamálum er orðið illa sýkt af hinni stórkostlegu fjallabakteríu. Þessari þróun ber á flestan hátt að fagna og á góðum dögum eru fjöllin krökk af hamingjusömu fólki.

En nú verðum við samt sem áður að fara að skoða þessa þróun betur. Að mínu mati hafa margir þessara hópa farið offari í sínum ferðum. Duglegt fólk sem telur sér allt fært en kunnáttan lítil og oft er hópstjórinn upphafinn sem alvitur leiðtogi. Aðili sem fer oft of geyst og hleypir með fólki sem á ekkert erindi á fjöll. Sorgleg staðreynd sem hefur orðið of mörgum að falli og það jafnvel í fylgd mjög vanra fjallamanna. Í ferðum sem þessum er hópurin aldrei sterkari en sá sem sístur er varðandi kunnáttu og búnað. Þetta er staðreynd sem allir verða að temja sér sem ætla í ferðir sem þessar. Kröfur þarf því að auka til þátttakenda í slíkum ferðum og ekki síst þarf að auka kröfur til skipuleggjenda slíkra ferða.

Í samtölum mínum við margt gott fólk úr hópum af þessu tagi hef ég heyrt ýmislegt. Fólki án lágmarksþekkingar og búnaðar fer í krefjandi fjallaferðir. Hér þarf því breytt hugarfar og auka kröfur til þeirra sem ætla að halda til fjalla. Þetta flotta fólk er oft vel búið varðandi fatnað, en þegar kemur að vissum þáttum er eins og einhverjar huglægar hindranir spretti upp. Líkt og fólk haldi að það fylgi áhætta að bæta búnaðinn. Sömu rök og heyrðust á sínum tíma þegar öryggisbelti í bifreiðum voru að öðlast sinn sess.

Hér nefni ég nokkra þætti:

1. Broddar og ísaxir

Þessi lykilbúnaður í fjallaferðum er því miður of oft vanmetin en stundum ofmetinn. Fólk er nefnilega allt of oft að fá sér algjörlega ófullnægjandi búnað af þessu tagi. Sk. „hálkubroddar“ eru orðnir algeng sjón á fjöllum. Búnaður sem er með öllu ófullnægjandi í flestum aðstæðum. Getur jafnvel orðið til þess að fólk fer lengra en það ætti að komast m.v. reynslu og annan búnað. Nokkur óhöpp hafa orðið undanfarið vegna slíks búnaðar. Erlendur ferðamaður varð úti í grunnri jökulsprungu sem hann hafði álpast ofan í á slíkum broddum og komst ekki upp úr aftur. Menn á fjallabroddum gengu þar upp og niður án fyrirhafnar. Því verðum við að hefja átak gegn sk. „hálkubroddum“ í fjallaferðum. Hér eftir notum við aðeins fjallabrodda og ísöxin er alltaf í hendinni þegar við erum komin á broddana. Og síðast en ekki síst, við verðum að læra fullkomlega hvernig nota á þennan búnað þannig að viðbrögðin verði okkur eðlislæg. Viðvaningur með ísöxi er verr settur en án hennar í vissum aðstæðum.

2. Snjóflóðabúnaður

Allt of fáir þeirra sem fara á fjöll að vetrarlagi eru rétt undirbúnir vegna snjóflóðahættu. Fáir hafa þekkinguna á að meta hættuna og forðast hættusvæði. Margir hafa miklar ýmsar ranghugmyndir varðandi þennan stóra ógnvald okkar fjallamanna. Síðan er það merkilegt hversu fáir hafa með sér nauðsynlegan öryggisbúnað. Snjóflóðaýlir, leitarstöng og skófla er nokkuð sem allir eiga að hafa (engar undanþágur). Við köllum þetta „heilaga þrenningu“. Slíkt er ekki búnaður sem aðeins fararstjórinn eða björgunarsveitamenn sem hugsanlega koma til aðstoðar eiga að hafa. ALLIR eiga að hafa þennan búnað í fjallaferðum að vetrarlagi. Snjóflóð falla á lægstu fjöllum. Ömurleg slys af völdum snjóflóða hafa orðið þar sem enginn reiknaði með slíku. Þar sem er snjór, þar geta fallið snjóflóð. Lítið flóð getur verið banvænt eða slasað þá sem fyrir því verða illa. Við verðum að hætta að vanmeta þessa ógn. Fólk sem greitt getur hátt í eitthundraðþúsund fyrir góðan regnjakka, á ekki að telja eftir sér að greiða hálfa þá upphæð fyrir þennan búnað sem skilið getur á milli lífs og dauða. Búnaður sem þessi sjaldséður hjá of stórum hluta fjallafólks.

3. Rötun

Í dag eru of fáir sam líta á áttavitann sem sinn besta ferðafélaga. Sjálfur hef ég hitt hópa þar sem kannski einn úr hópnum var með GPS tæki. Annar búnaður var ekki með. Hver væri staðan hjá slíkum hóp ef rafhlöður tækisins tæmdust. Áttaviti á alltaf að vera með í för og það helst á hverjum manni. Því sá sem verður viðskila við hópinn er í vondum málum án áttavitans ef skyggnið versnar.

Nú vona ég að óhöpp og slys undanfarinna missera verði öllu fjallafólki ástæða til nýs hugarfars varðandi þær kröfur sem við gerum til okkar sjálfra og ferðafélaga okkar í framtíðinni. Það er ekki nóg að einn í hópnum sé vel búinn, allir þurfa að vera það. Við verðum líka að temja okkur hugarfarið að það sé ekki skömm að snúa við í tíma. Í stórum hóp getur félagslegur þrýstingur með að ljúka verkefninu orðið of mikill og þeir sem síður treysta sér neyða sig of oft áfram langt umfram getu og búnað.
Viss kunnátta, búnaður og þjálfun ætti að vera skylda í fjallaferðum. Því fer fjarri að þeirri skyldu sé framfyglt hjá stórum hluta fjallafólks í dag. Margt annað má bæta varðandi þekkingu og búnað fjallafólks en látum þessa þrjá þætti duga í þessum pistli.

Eru ekki komin nógu mörg dæmi til að sýna okkur fram á að þar þarf að verða breyting? Við veitum ekki afslátt af öryggi á fjöllum.

Verum samt óhrædd við að ferðast sem fyrr, en af meiri skynsemi og betur undirbúin.

Birt:
4. febrúar 2013
Höfundur:
Árni Tryggvason
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Árni Tryggvason „Hugleiðingar vegna óhappa á fjöllum“, Náttúran.is: 4. febrúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/02/04/hugleidingar-vegna-ohappa-fjollum/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 7. febrúar 2013

Skilaboð: