„Stjórn Landverndar hvetur stjórnvöld til að grípa til tafarlausra aðgerða í Kolgrafafirði til að forða frekara umhverfisslysi en nú þegar er orðið. Samtökin taka undir mat sveitarstjórnarfólks í Grundarfirði, sérfræðinga á Náttúrustofu Vesturlands og fleiri um að leita þurfi allra mögulegra leiða til að hreinsa fjöruna til að koma í veg fyrir frekari lyktar- og grútarmengun. Einnig hvetur Landvernd til þess að svæðið verði vaktað vegna mögulegra áhrifa grútar á fugla- og sjávarlíf.

Í ljósi atburða í Kolgrafafirði fer stjórn Landverndar fram á að rannsökuð verði möguleg tengsl  þverunar fjarðarins við atburðarás síðustu vikna og að áhrif þverana fjarða á lífríki þeirra almennt verði rannsökuð ítarlegar en gert hefur verið hingað til, jafnt á firði sem þegar hafa verið þveraðir og þá sem fyrirhugað er að þvera. Nú er t.d. fyrirhugað að þvera fimm firði á verndarsvæði  Breiðafjarðar. Í umhverfismati samgönguáætlunar 2011-2012 segir að þveranirnar kunni að hafa áhrif á strauma, ölduhæð og vatnsskipti í fjörðum, sem geti stuðlað að breytingum á lífríki á strandsvæðum og í sjó. Þar segir einnig að reynsla af þverun Gilsfjarðar sýni að erfiðara sé að sjá fyrir áhrif þverunar á eðlisræna þætti sjávar og afleidd áhrif þeirra á lífríki.

Mikilvægt er að Vegagerðin geri ítarlegri rannsóknir á áhrifum fyrirhugaðra þverana en gerðar hafa verið fram til þessa svo spá megi fyrir um með meiri vissu hvort þær kunni að valda viðlíka viðburði og þeim sem nýlega átti sér stað í Kolgrafafirði. Komi það í ljós er nauðsynlegt að Vegagerðin grípi til viðeigandi aðgerða, t.d. með breytingum á hönnun þverana eða leiðarvali. Einnig er mikilvægt að Vegagerðin leggi fram og framfylgi áætlunum um vöktun lífríkis og náttúrufars að fyrirhuguðum framkvæmdum loknum, enda muni niðurstöður slíkra rannsókna auka þekkingu á mögulegum áhrifum fjarðaþverana.“

Birt:
Feb. 5, 2013
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Grípa þarf til aðgerða vegna síldardauða“, Náttúran.is: Feb. 5, 2013 URL: http://nature.is/d/2013/02/05/gripa-tharf-til-adgerda-vegna-sildardauda/ [Skoðað:June 12, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: