Margir hafa tekið eftir því að algengar brauðtegundir eru farnar að endast æ lengur. Samt er það svo að brauð sem er nýbakað úr náttúrulegum hráefnum helst ekki lengi ferskt.

Ýmis efni eru notuð til að lengja geymslutímann. Kalsíum própríónat (E282) kemur þannig í veg fyrir að brauð og kökur mygli. Rannsóknir benda til þess að efnið geti skert athyglisgáfuna og valdið bráðlyndi, eirðarleysi og svefntruflunum. Þetta hefur þó ekki verið staðfest með fullnægjandi hætti.

Einnig eru notuð bindiefni og sýrustillar í brauð sem geta haft neikvæð áhrif á þá sem eru með glútenóþol eða eru með viðkvæma meltingu.

Að lokum má nefna að sérstök bökunarensím eru notuð víðast hvar sem hjálparefni til að fjöldaframleiða brauð í dag, og verða efnaleifar þessara ensíma stundum eftir í brauðunum. Ef kaupa á fjöldaframleitt brauð þarf því að athuga E-efnin og gæta þess að um gróft og tiltölulega lítið meðhöndlað brauð sé að ræða. Soja-lesitín sem oft finnst í brauði er yfirleitt unnið úr erfðabreyttu soja.

Til að forðast aukefni í brauð og kornmeti, er náttúrulega best að baka sitt brauð heimavið og gæta þess að nota hreint, helst lífrænt ræktað korn og engin rotvarnarefni.

Grafík: Brauð, kökur og kex, Guðrún A. Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir.

Birt:
4. janúar 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Brauð, kökur og kex“, Náttúran.is: 4. janúar 2014 URL: http://nature.is/d/2014/01/28/braud-kokur-og-kex/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 28. janúar 2014
breytt: 16. september 2014

Skilaboð: