„Lífræn matjurtarækt á íslandi, þróun hennar og staða“ er yfirsögn MS varnar Rögnu Dagbjartar Davíðsdóttur nema í Umhverfis og auðlindafræði við Háskóla Íslands en vörnin fer fram á morgun, miðvikudaginn 23. janúar kl 15:00 í VRII, Hjarðarhaga 6, stofu 157.

„Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi samþykkt tillögu þess efnis að auka lífræna landbúnaðarframleiðslu þannig að hún verði um 15% af landbúnaðarframleiðslu á Íslandi árið 2020 (Þingskjal 1020, 2011-2012),  er ekki vitað hvert hlutfall hennar er í dag, hvorki hlutfall lífrænnar matjurtaræktar né hlutfall annarra lífrænna landbúnaðarvara. Markmið þessarar rannsóknar var kanna stöðu lífrænnar matjurtaræktar á Íslandi, fjalla um þróun hennar í náinni framtíð og áætla hlutdeild helstu matjurta af heildar matjurtauppskeru landsins. Í rannsókninni kom meðal annars í ljós að nú er lífræn grænmetisuppskera tæp 4% af heildarframleiðslu hérlendis og er búist við að hún aukist lítið næstu árin. Lífræn bygguppskera eykst hinsvegar úr 52% í tæp 69% af byggi ræktuðu til manneldis á tímabilinu. Auk þess var rekstrarumhverfi bænda í lífrænni matjurtarækt skoðað en bændur segjast almennt ekki anna eftirspurn og hún sé enn að aukast. Bændur sinna að mestu leyti öllu ferlinu frá ræktun þar til varan er komin í verslanir. Lögð var áhersla að fá þeirra sjónarmið varðandi hvað hindraði bændur í að fara í lífræna matjurtaræktun og hvað þyrfti að leggja áherslu á til að auka hana. Bændur telja að helsta hindrunin sé skortur á hvatningu frá þeim stofnunum er standa greininni næst eins og frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Bændasamtökum Íslands og stjórnvöldum. Til að auka lífræna matjurtarækt þurfi meðal annars að auka styrki, ráðgjöf, tilraunir og kynningu. Í rannsókninni er aðallega stuðst við könnun sem gerð var á meðal bænda í lífrænni matjurtarækt og tilraunir er varða matjurtir á Íslandi. Auk þess var aflað heimilda hjá ýmsum stofnunum og einstaklingum er tengjast málaflokknum.“
Leiðbeinendur eru þau Brynhildur Davíðsdóttir og Ólafur Dýrmundsson. Prófdómari: Kristín Vala Ragnarsdóttir.

Allir eru velkomnir!

Ljósmynd: Kartöflugrös, hvítkál og bygg, lífræn eigin ræktun, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
22. janúar 2013
Höfundur:
Háskóli Íslands
Tilvitnun:
Háskóli Íslands „Lífræn matjurtarækt á íslandi, þróun hennar og staða“, Náttúran.is: 22. janúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/01/22/lifraen-matjurtaraekt-islandi-throun-hennar-og-sta/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: