Ályktun Framtíðarlandsins um nýsamþykkta rammaáætlun
Það er ástæða til að fagna nýsamþykktri rammaáætlun á Alþingi. Rammaáætlun er stór áfangi fyrir náttúruvernd því dýrmætum svæðum er komið í skjól og önnur fá gálgafrest. Mikið verk hefur verið unnið og mikilvægum gögnum safnað. Þannig hefur verið tekið tillit til athugasemda hvað varðar svæði eins og neðri Þjórsá sem falla í biðflokk. Þar er meðal annars í húfi einn stærsti laxastofn á Íslandi og það væri vart sæmandi menntaðri þjóð að fórna svo miklum verðmætum eða forgangsraða slíkri virkjunarhugmynd þegar þjóðin hefur þegar virkjað fimm sinnum meira en hún þarfnast. Um 90% orkunnar er seld á afar lágu verði til örfárra stórfyrirtækja.
Það er full ástæða til að fagna því að svæði eins og Torfajökulssvæðið, Kerlingarfjöll og Þjórsárver fara í verndarflokk en í biðflokk fara afar mörg mikilvæg svæði og það er umhugsunarefni hversu langt skal ganga nærri höfuðborginni og Mývatni.
Á síðustu árum hafa komið upp fjölmörg álitamál hvað varðar jarðvarmanýtingu á Íslandi. Mengun af völdum brennisteins, vandamál við niðurdælingu, arsenikmengun í Þingvallavatni, áhætta hvað varðar boranir nærri Mývatni, loftmengun í Reykjavík og aukin notkun asmalyfja á kyrrum dögum. Allt eru þetta þættir sem skerða lífsgæði okkar að óþörfu.
Náttúruverndarsinnar hafa á undanförnum árum verið sakaðir um að hafa sofið á verðinum hvað varðar Hellisheiðina. Mörgu fólki sem af einhverjum ástæðum telur sig ekki vera „náttúruverndarsinnað“ hefur þótt sárt að horfa upp á framkvæmdir í þessu fallega baklandi höfuðborgarinnar. Sú framkvæmd var samt hluti af „sátt“, en í staðinn fengu Þjórsárver gálgafrest. Nú getur einhver spurt hvort höfuðborgarbúar sætti sig við stóraukna brennisteinsmengun, þriðja álverið við Faxaflóa og hvort það séu eingöngu „náttúruverndarsinnar“ sem vilja loftgæði og óspillta náttúru í baklandi okkar og hvort hin ósjálfbæra nýting, mengun og línulagnir á Reykjanesskaga og á Hengilssvæðinu í þágu álvers í Helguvík geti á nokkurn hátt talist skynsamlegar eða siðlegar. Í mati á umhverfisáhrifum Hellisheiðarvirkjunar var því lofað að öll vandamál varðandi loftmengun og affallsvatn yrðu leyst, en nú hefur komið í ljós að því fer fjarri, og manngerðir jarðskjálftar meira að segja bæst við.
Enn eimir því miður af öfgafullri virkjunarstefnu meðal stjórnmálamanna og orkufyrirtækja á Íslandi. Rammaáætlun er fyrsta skrefið í átt að bættri umgengni við landið og skynsamlegri stefnu. Enn eru þó mörg álitamál óleyst, hvað varðar skipulag orkumála, óhóflegar línulagnir, sjálfbærni og rányrkju háhitasvæða, siðferðileg álitamál og áhættu, auk þess sem biðflokkurinn heldur mörgum svæðum enn í gíslingu.
Við vonum að þjóðinni hlotnist sú gæfa að skilja og lifa í sátt við náttúru Íslands.
Ljósmynd: Sólarlag við Faxaflóa,©Árni Tryggvason.
Birt:
Tilvitnun:
María Ellingsen „Ályktun Framtíðarlandsins um nýsamþykkta rammaáætlun“, Náttúran.is: 18. janúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/01/18/lyktun-framtidarlandsins-um-nysamthykkta-rammaaaet/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.