Landvernd vill koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum vegna samþykkis Alþingis á þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og nýtingu landssvæða (rammaáætlun).

  1. Landvernd telur að áfangasigur hafi náðst í náttúruvernd á Íslandi með samþykkt tillögunnar. Þó þarf enn að tryggja vernd nokkurra svæða.
  2. Landvernd fagnar því að allmörg verðmæt svæði hafa verið sett í verndarflokk, svo sem Þjórsárver, Kerlingarfjöll, Friðland að Fjallabaki, Jökulsá á Fjöllum, efsti hluti Tungnaár, Gjástykki, Bitra og Grændalur.
  3. Landvernd leggur ríka áherslu á að komið verði í veg fyrir alla frekari uppbyggingu í orkuiðnaði á hálendi Íslands og fagnar því að allar virkjanahugmyndir á svæðinu hafi fallið í verndar- eða biðflokk. Samtökin ítreka þá afstöðu sína að öllum virkjunarhugmyndum á hálendinu verði ýtt til hliðar og hafist handa við friðlýsingu svæðisins í heild sinni. Skoðanakönun Capacent Gallup frá því í október 2011 sýndi að 56% þjóðarinnar var hlynnt stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.
  4. Það er afstaða Landverndar að mun fleiri virkjanahugmyndir í jarðvarma ættu að færast í a.m.k. biðflokk vegna óvissu um endingu auðlindarinnar, óleystra vandamála við meðferð mengandi efna (förgun affallsvatns) og heilsufarsleg áhrif af brennisteinsvetnismengun. Þetta á ekki síst við um svæði á Reykjanesskaga og í Mývatnssveit. Landvernd telur að ekki beri að virkja innan Reykjanesfólkvangs, enda gengur slíkt gegn verndun fólkvangsins og uppbyggingu eldfjallaþjóðgarðs, auk þess að rýra stórkostlega tækifæri til útivistar í lítt snortnu umhverfi í andyri stærsta þéttbýlissvæðis á Íslandi. Minnt er á að faghópur II í rammaáætlun taldi að verðmæti lítt snortinna svæða í nágrenni höfuðborgarinnar hafi að öllum líkindum verið vanmetin fyrir útivist og ferðaþjónustu. Þá óttast Landvernd áhrif jarðvarmavinnslu á lífríki Mývatns og Laxár og minnir á kröfu samtakanna um stöðvun undirbúningframkvæmda þangað til nýtt umhverfismat hefur farið fram. Þá vill Landvernd minna á að þegar hefur 9 af 19 sýnilegum háhitasvæðum á Íslandi verið raskað með nýtingu eða rannsóknaborunum. Nauðsynlegt er að líta sérstaklega til ofangreindra þátta í næsta áfanga rammaáætlunar.
  5. Landvernd telur að svæði með afar hátt náttúruverndargildi eins og vatnasvið Jökulsánna í Skagafirði og vatnasvið Hólmsár og Skaftár í Skaftárhreppi ættu að færast úr biðflokki í verndarflokk, í samræmi við hátt mat á verndargildi þeirra í rökstuðningi verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Mikilvægt er að þessi svæði færist í verndarflokk í næsta áfanga rammaáætlunar.
Birt:
14. janúar 2013
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Landvernd um samþykkt þingsályktunartillögu á Alþingi um vernd og nýtingu landssvæða“, Náttúran.is: 14. janúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/01/14/landvernd-um-samthykkt-thingsalyktunartillogu-alth/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: