Tillaga umhverfisráðherra um vernd og orkunýtingu landsvæða, hin svokallaða rammaáætlun, var samþykkt á Alþingi nú rétt fyrir fréttir með 36 atkvæðum gegn 21. Frávísunartillaga var felld og allar breytingatillögur.

„Þetta hefur verið löng atkvæðagreiðsla enda málið stórt og mörgum mikið hjartans mál, hvort sem litið er til þeirra sem vilja færa fleiri svæði úr nýtingu í bið og úr bið í vernd eða þeirra sem vilja fjölga svæðum í orkunýtingarflokki,“ lýsti Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttamaður andrúmsloftinu í Alþingishúsinu í morgun í hádegisfréttum útvarps. Oddvitar stjórnarflokkanna fögnuðu sérstaklega þessari niðurstöðu, forsætisráðherra sagði tímamótin merk, nú væru fagleg vinnubrögð tryggð og atvinnuvegaráðherra sagði að loksins fái náttúran að njóta vafans og nokkur landsvæði endanlega sett í vernd. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra tók í sama streng nú njóti náttúran vafans, Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn segja málið hafa verið tekið úr sáttaferli og komið í átakaferli.

„Virðulegi forseti, ég legg til að við styðjum tillögu meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar óbreytta og það jafnvægi sem hún felur í sér milli ólíkra sjónarhorna,“ sagði umhverfisráðherra. Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingar, var á sömu skoðun. „Með samþykkt þessa máls hér í dag eru mörkuð tímamót. Með því hefur skapast samstaða um leikreglur í þeirri erfiðu deilu sem hér hefur staðið samfellt í fjóra áratugi um náttúrusvæði og virkjanaáform.

Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn voru hins vegar ósáttir. „Við munum styðja tillögur sem lagðar verða hér fram í dag sem miða að því að koma málinu aftur í hið faglega ferli svo sáttin haldi en verði ekki rofin eins og ríkisstjórnin kýs að gera,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, tók í sama streng. „Hér liggur fyrir pólitískt plagg sem eru því miður gríðarleg átök um. Ég óttast að afleiðingin verði sú að það sem hér verður samþykkt í dag muni ekki lifa lengi.“

Þór Saari mælti fyrir hönd Hreyfingarinnar, sem greiddi atkvæði með rammaáætlun. „Þá munum við styðja rammaáætlun í heild þegar upp er staðið vegna þess að sem slík er hún gríðarlega mikilvægt skref inn í framtíðina.“

Ljósmynd: Urriðafoss. ©Árni Tryggvason.

Birt:
14. janúar 2013
Höfundur:
Rúv
Tilvitnun:
Rúv „Rammáætlun samþykkt á Alþingi“, Náttúran.is: 14. janúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/01/14/rammaaetlun-samthykkt-althingi/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: