Vottunarstofan Tún hefur staðfest að Te & Kaffi uppfylli reglur um framleiðslu á lífrænu kaffi. Vottorð þessa efnis var formlega afhent í kaffibrennslu félagsins í Hafnarfirði í morgun, föstudaginn 11. janúar 2013. Te & Kaffi er fyrsta vinnslustöðin sem fær vottun til framleiðslu á lífrænu kaffi hér á landi.

Með vottun Túns er staðfest að lífrænt kaffi sem vinnslustöðin framleiðir byggi á vottuðum lífrænum hráefnum, sem haldið er aðgreindum frá öðrum hráefnum á öllum stigum, allt frá móttöku kaffibauna til pökkunar á ristuðum baunum og möluðu kaffi; að aðferðir við meðhöndlun og geymslu lífrænna hráefna og afurða samræmist reglum um lífræna framleiðslu; og að gæðastjórnun, skráningar og merkingar fyrirtækisins uppfylli settar kröfur.

Te & Kaffi

Te & Kaffi var stofnað árið 1984. Fyrirtækið rekur kaffibrennslu í Hafnarfirði auk níu kaffihúsa og verslana í Reykjavík og á Akureyri. Í kaffibrennslunni fer fram m.a. ristun kaffibauna, blöndun og pökkun á kaffibaunum og möluðu kaffi. Nýlega hóf Te & Kaffi að framleiða kaffiblöndu úr lífrænum kaffibaunum fyrir vörulínuna Himneskt sem fyrirtækið Aðföng markaðssetur.

Te & Kaffi hefur lengi haft á stefnuskrá sinni samfélagsábyrgð og leggur áherslu á öflun kaffibauna frá birgjum sem vottaðir eru samkvæmt kröfum um sanngjörn viðskipti (Fairtrade), uppruna- og siðferðisviðmið (UTZ vottun) og verndun umhverfis og samfélaga á kaffiræktunarsvæðum (Rainforest Alliance). Fyrirtækið telur lífræna vottun rökrétt framhald og kærkomna viðbót.

Te & Kaffi er fyrsta kaffibrennslan sem hlýtur vottun til lífrænnar framleiðslu hér á landi.  Stefán Ulrich Wernersson framleiðslustjóri hjá Te & Kaffi telur vottunina vera mikilvæga og staðfesta bæði getu og framleiðslugæði Te & Kaffi. Ennfremur segir hann að vottunin beri vitni um strangan og agaðan verkferil við framleiðsluaðferðir fyrirtækisins.   

Lífræn framleiðsla á Íslandi

Vottaðar lífrænar afurðir og náttúruafurðir hafa þá sérstöðu á markaði að allur ferill þeirra, frá ræktun eða söfnun hráefna, til pökkunar í neytendaumbúðir eða afhendingar í lausu, er undir eftirliti óháðs aðila, þ.e. vottunarstofu sem fylgist með því að uppruni og meðferð afurðanna sé í samræmi við alþjóðlegar og íslenskar kröfur um lífræna framleiðslu.

Ljósmynd:  F.v. Kristín María Dýrfjörð markaðsstjóri og Stefán Wernersson framleiðslustjóri hjá Te of Kaffi, ásamt Rannveigu Guðleifsdóttur verkefnisstjóra hjá Vottunarstofunni Túni.

Birt:
11. janúar 2013
Tilvitnun:
Gunnar Á. Gunnarsson, Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Te & Kaffi fær vottun til lífrænnar framleiðslu á kaffi“, Náttúran.is: 11. janúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/01/11/te-kaffi-faer-vottun-til-lifraennar-framleidslu-ka/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 22. ágúst 2014

Skilaboð: