Baráttan um náttúru Íslands
„Ég elska þig bæði sem móður og mey,
sem mögur og ástfanginn drengur,
þú forkunnar tignprúða fjallgöfga ey!
Ég fæ ekki dulist þess lengur.
Þú háa meydrottning, heyr þú mig:
Af hug og sálu ég elska þig.“
Svo orti Hannes Hafstein árið 1880 í Ástarjátningu sinni til Íslands. Þótt Hannes hefði á þessum tímapunkti tekið upp merki raunsæisstefnunnar, var hann enn undir áhrifum frá rómantikinni, enda er þetta eitt af hans fyrstu kvæðum.
Hannes og menn af hans kynslóð voru hlynntir framförum og töldu vísindin efla alla dáð. Þeir voru hins vegar saklausir og barnalegir að því leyti að þeir sáu ekki fyrir skipbrot tveggja heimstyrjalda og tilurð kjarnorkusprengjunnar, sem varpar okkur öllum út í myrkur og tóm. Af hverju nefni ég þetta hér. Jú af því að framfara- og vísindahyggja er enn mjög rík meðal íslenskra athafna- og stjórnmálamanna. Það má kannski orða það sem svo að margur íslenskur stjórnmálamaðurinn hagi sér eins og kjarnorkuvopn hafi aldrei komið fram á sjónarsviðið.
Hvað á ég við með því. Jú, íslenskir athafna- og stjórnmálamenn eru svo barnslega einlægir í trú sinni á einkum tæknilegar framfarir, og framþróun. Þessi stórhugur birtist í allskyns myndum, eins og áformum um göng inn í jökla, eða stórvirkjanir á hálendinu sem leysa eigi þjóðina úr fjötrum meintrar fátæktar. Andi Einars Benediktssonar skálds svífur enn yfir vötnum, og menn hugsa stórt, en sjaldnast spyrja þeir sjálfa sig þeirrar einföldu spurningar: „Af hverju ætti ég að gera þetta yfirhöfuð?“
Íslenskir verkfræðingar, athafnamenn og stjórnmálamenn eru bjartsýnir og aðhyllast vísindahyggju og framfaratrú. Þeir telja að ef virkjuð verði vatnsföll okkar lands, muni hag okkar verða borgið, ekki síst ef okkur tekst að breyta fjallgöfgu eyjunni okkar í orkuútibú frá meginlandi Evrópu og olíuborun tekst á Drekasvæðinu. Þá munum við komast inn í hið jarðneska himnaríki og geta lifað af tekjum auðlinda okkar um ókomin ár? Eða hvað? Er kannski kjarnorkusprengja einhversstaðar handan við hornið? Lifum við e.t.v. ekki í besta heimi allra heima? Eru Íslendingar kannski ekki Guðs útvalda þjóð? Það skyldi þó ekki vera að einhversstaðar væri pottur brotinn?
Íslenskir heimspekingar hafa lítið verið spurðir álits á þessu öllu saman, enda eru þeir margir árans guðleysingjar, póstmódernistar, ef ekki nýmarxistar. Heimspekingarnir hafa fyrir löngu yfirgefið alla vísindahyggju og telja að framfarir nútímans stefni mest aftur á bak, ef ekki bara alveg norður og niður.
En hvaða ógn er það þá sem grúfir yfir íslensku samfélagi? Hvað þarf íslenskt samfélag að óttast? Jú, takmarkaðar auðlindir Jarðar eru farnar að ganga til þurrðar og þessvegna seilast heimsveldi, stórþjóðir og stórfyrirtæki æ norðar á Jarðarkringluna í óstöðvandi fýsn sinni við að fullnægja eigin auðlindaþörf. Áður fyrr var Ísland svo einangrað og langt í burtu að meira að segja Englandskóngur vildi ekki fá landið gefins. En núna eru stórveldi heimsins farin að beina sjónum sínum að norðurhjaranum og það þýðir að það á að ÞRÓA og VINNA auðlindir norðurslóða. Bæði Grænland og Ísland eru undir í þessu auðlindakapphlaupi, sem Evrópusambandið, Kínverjar, Norðmenn og Rússar keppa í af miklum móð. Þetta auðlindagullæði hér á norðurslóðum hefur gert margan manninn að apa, og apa þeir eftir hvor öðrum í að dásama erlenda hrægrammasjóði á sviði umhverfismála og miskunnarlaus erlend stórfyrirtæki sem ætla sér ekkert annað en að nýta auðlindir norðurslóða fyrir sjálf sig. Þar stendur nefnilega hnífurinn í kúnni. Auðlindir Íslands á ekki að nýta fyrir Íslendinga, heldur fyrir erlendar stórþjóðir. Við Íslendingar erum komin í sömu stöðu og frumbyggjar Amazonsvæðisins sem horfa á erlend stórfyrirtæki eyða auðlindum og regnskógum sínum, en hafa sjálfir mest lítið um málið að segja.
Nú reiðist þú, ágæti lesandi, því þú lítur á þig sem heimsborgara en ekki frumbyggja. En er það ekki hroki? Fengum við ekki þetta land til varðveislu frá forfeðrum okkar, víkingunum sem komu hér að ósnortnu landi þótt e.t.v. væru hér nokkrir írskir munkar við fræðastörf? Land okkar er ekki ósnortið í dag, en þýðir það að við megum eyðileggja tign þess og göfgi til allrar framtíðar? Við erum í sömu stöðu og frumbyggjar þessa lands, hvort sem við teljumst vera frumbyggjar eða ekki.
Bergrisinn í skjaldarmerki Íslands stendur ekki lengur við fjallahringinn og heldur vörð. Nei hann hefur verið hálshöggvinn af Íslendingum sem haga sér eins og verstu Sturlungar og landráðamenn. Íslendingar trúa ekki lengur á álfa, nema blómálfa í sínum eigin bakgarði.
Ef við Íslendingar stöndum ekki upp núna sem þjóð eða menningarleg eining sem á sér sameiginlegt tungumál, menningu og sögu, og berjumst fyrir rétti fjallanna og fossanna okkar til að vera til. Ef við berjumst ekki fyrir því að fjallavötnin okkar fái að vera í friði, þá verður okkar eigin þægilega friði ógnað að lokum. Við munum enda sem landlaus þjóð, annað hvort án lands, eða án nokkurs raunverulegs sjálfstæðis. Það er því full ástæða til að hefja af krafti þá baráttu sem er lokabaráttan um náttúru Íslands.
Höfundurinn Ingibjörg Elsa Björnsdóttir er formaður Náttúruverndarsamtaka Suðurlands, umhverfisefnafræðingur og þýðandi.
Ljósmynd: Hjálparfoss í Þjórsárdal, ©Árni Tryggvason.
Birt:
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Baráttan um náttúru Íslands“, Náttúran.is: 12. janúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/01/12/barattan-um-natturu-islands/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 14. janúar 2013